Sýnir færslur með efnisorðinu málfræði. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu málfræði. Sýna allar færslur

18. maí 2010

Dýrafjörður

Ég heyrði Sölva Tryggvason taka sér í munn máltækið „Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar“ um daginn. Hann fór rétt með upprunann þegar hann vísar í sögu Gísla Súrssonar. Hins vegar fór hann rangt með máltækið sjálft. Hann notaði það í sömu merkingunni og að öll spjót bærust nú að Lúxemborg. Að öll vötn falli til Dýrafjarðar vísar til þess að ekki verði aftur snúið.

Í þessu samhengi má líka nefna að enska máltækið „All roads lead to Rome“ merkir allt annað en hið svipaða íslenska. Þar er átt við að margar leiðir séu að sama markmiðinu.

(#twitter)

23. mar. 2010

Sænsk orð I

Ýmis sænsk orð eru fyndin. Ötli ég noti ekki blogginn þennan til að varpa ljósi á þau nokkur. Hið fyrsta fyrir valinu er:

knivhuggen

Sum sé lýsingarháttur þátíðar af sögninni knivhugga sem í beinni þýðingu á íslensku væri hnífhöggva.

Þetta þykir mér frábært orð. Það kemur býsna oft fyrir í fréttum hér. Menn eru hnífhöggnir hér hverja helgi að því er virðist. Menn eru líka stundum hnífstungnir (knivstucken), en þó yfirleitt hnífhöggnir. Hver munurinn er nákvæmlega á að vera hnífhöggvinn og hnífstunginn veit ég ekki. Jóhanna telur að það fari eftir beittu afli. Ég tel að það fari eftir hvernig haldið er á hnífnum, þ.e. hvort hnífsblaðið standi utan- eða innanhandar.

22. feb. 2010

Huuu? Bloggfærsla

Ha. Nei, bíddu, bíddu. Bloggfærsla hér? Ja, hérna, hér!

Er ekki löngu kominn tími á eina góða bloggfærslu á gamla góða blogger.com. Það held ég nú. En um hvað skal rætt? Hvað liggur mér á hjarta? Hugleikur, segðu mér, segðu mér hvað ég á að blogga um... (Hugleikur hugsar, hann andvarpar). "Ég er nú sjálfur að reyna eitthvað að blogga hér," svarara Hugleikur, fær sér sopa af bjór, og geiblar munninn.

"Ég er svo vinsæll," segir hugleikur, "hlær og grípur um munn sér".

Hugleikur vandræðast en ég blogga bara.

Tölum um sögnina eignast. Hana ætti ekki að nota í boðhætti. Eignastu. Nei það er nú ekki alveg málið. En hvað með sögnina fá. Fáðu... fáðu hold. Nei það er ekki gott. Fáðu þér hins vegar. Upplifa! Upplifðu Toyota bíla. Eignastu Toyota, upplifðu frelsi og fáðu hugarró.

Lofið mér krakkar mínir, að nota þessar sagnir aldreigi í boðhætti.

9. nóv. 2008

Að grýta

Það fer í taugarnar á mér þegar fólk tala um að grýta tómötum, eggjum, snjóboltum og öðrum hlutum. Sögnin að grýta merkir að kasta gjóti. Þannig var Alþingishúsið ekki grýtt í gær, né var eggjum grýtt í það. Grjót ku ekki hafa komið við sögu.

Hins vegar var kastað í það eggjum.

7. nóv. 2008

Fíkniefnaakstur

Vísir, 03. okt. 2008 07:13
Grunaður um fíkniefnaakstur


Rakst á þetta um daginn. Samkvæmt mínum málskilningi ætti þarna að vera um akstur á fíknefnum að ræða. Þ.e. viðkomandi var grunaður um að keyra um bæinn með fíkniefni. Svo var þó ekki tilfellið. Hann var sum sé grunaður um að keyra um undir áhrifum fíkniefna. Þetta er eins og að nota orðið áfengisakstur en ekki ölvunarakstur.
En hvað er rétt að nota í staðinn: "Akstur undir áhrifum fíkniefna" er langt og óþjált. "Vímuakstur" á svo sem alveg eins við um ölvunarakstur.

Þetta sá ég svo í dag:

Vísir, 07. nóv. 2008 07:17
Réttindalaus og efnaður á 124 km hraða

Snilld!

Samkvæmt þessu gæti maður talað um efnunarakstur. Kannski dálítið langsótt.

Á sænsku er ölvunarakstur kallaður "rattfylleri" sem þýða má sem "stýrisfyllerí".

Á svipuðum nótum:

Vísir, 26. sep. 2008 08:31
Unglingadrykkja tvöfaldast á milli grunn- og framhaldsskóla

Hins vegar sér maður aldrei fyrirsagnir á borð við: "Barnaát aukið vandamál á vesturlöndum"

11. ágú. 2008

Þegar ég var barn hélt ég líka að íturvaxinn þýddi feitur.

Það má kannski halda því fram að 'íturvaxinn' merki 'feitur'. Að merking orðsins hafi einfaldlega breyst. Þeir eru líklega fjölmargir íslensku málhafaranir sem skilja orðið þannig og jafnvel þónokkrir sem nota það þannig. Það er enda ekki óalgengt að merking einstakra orða breytist. Nema að það sé viðhorfið til feitra sem hafi breyst. Að íturvaxnir þyki í dag "vel vaxnir, laglegir og myndarlegir" (sem er upprunaleg merking orðsins).

25. apr. 2007

Daglegt mál

Að hlaupa upp til handa og fóta

Samkvæmt íslenzku orðtakasafni Halldórs Halldórssonar ku eiginleg merking þessa orðtaks vera að bregðast á skjótan hátt við einhverjum til greiða. Það er enda sú notkun sem mér er töm. Þannig mætti segja: „Ég dæsti nú bara svona og hvíslaði með sjálfum mér hvað ég væri kaffiþyrstur og þá var nú hlaupið upp til handa og fóta og lagað kaffi, sett í pönnukökur og postulínið tekið fram!“

Ef orðtakinu er gúgglað má sjá að margir nota það í merkingunni, að gera úlfalda úr mýflugu, að fjargviðrast yfir e-u, að býsnast yfir e-u, að gera verður um e-ð út af e-u, að gera rekistefnu vegna e-s, gera mikið úr e-u, æsa sig (af óþarfa) yfir e-u o.s.frv.