Sýnir færslur með efnisorðinu mistök. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu mistök. Sýna allar færslur

1. apr. 2011

og enn einn póstur

Hjörtur Scheving leitar sér að íbúð og sendir fyrirspurn við auglýsingu á netinu. Hann sendir sjálfum sér afrit (öll heldur mér):

Vi har lyst til å se nærmere på denne boligen, er det mulighet å komme på visning?
Hilsen
Hjörtur Scheving



Hann fær svar um hæl:

Hei.

Det skal vi få til.
Kan du sende over litt info om deg/dere som er interessert?
Når kan du evt flytte inn om den skulle passe?
Passer det med visning på dagtid?

--
Med vennlig hilsen
Utleiemegleren Homansbyen

14. mar. 2011

Og enn af pósti

(#twitter) Ekki hætta dularfullar póstsendingar á netfangið mitt. Nú um daginn, 8. mars barst mér eftirfarandi:

Sæll Hjörtur

Við erum lítill hópur sem hyggst byggja og reka lítið einkasjúkrahús hér í Reykjavík. Undirbúningsvinnan er komin á fulla ferð.
XXXX gaf mér netfangið þitt, við töluðum saman um helgina.
Eingöngu verður um liðskiptaaðgerðir (hné- og mjaðmir) að ræða.

Við erum að líta í kringum okkur eftir góðum bæklunarlæknum sem gætu hugsað sér að flytja heim og taka þátt í framtíðaruppbyggingunni með okkur.

Hafi þetta vakið áhuga þinn vinsamlega sendu mér e-mail með símanúmerinu þínu og hvenær hentar að ég hringi í þig. Ég hef svo samband við þig í framhaldinu.


Leiðinlegt að missa af þessu tækifæri. En ég treysti mér bara ekki í liðskiptiaðgerðir eins og er.

Svo í dag kom þetta frá einhverri stúlku:


Sæll Hjörtur,

Ég kom með nótur fyrir tveimur takkaskópörum fyrir svona 3-4 vikum og ég hef ekki ennþá fengið þetta greitt inná reikninginn minn?

Tekur þetta langan tíma?



Ég veit ekki hvaða takkaskó þessi stúlka er að tala um.

16. feb. 2011

Enn af pósti

Í dag fékk ég enn einn dularfulla tölvupóstinn:

Mundu að skrá þetta allt niður í símann þinn og vertu með inneign á honum á leiðinni og hafðu hann full hlaðinn, skráðu í símann allar upplýsingar varðandi flugið, vegabréfsnúmerið þitt og veru með einvherja dollara með þér þannig að þú getur hringt úr tíkallasíma ef á þarf að halda.

Það sem ruglaði mig fyrst í ríminu var að undir þetta ritar svo einhver Mummi. Minn elsti vinur heitir Mummi og hann á það til að gefa góð ráð. Við nánari skoðun mátti sjá að þetta var ekki minn Mummi.

6. feb. 2011

Hinn Hjörtur?

Einn er fastur liður hjá mér, nánast í hverri viku. Ég fæ sendan póst sem ekki er ætlaður mér, heldur einhverjum öðrum Hirti. Svona er þetta búið að vera í circa þrjú ár. Í fyrstu hélt ég að um einhvern einn Hjört væri að ræða sem hefði fyrir mistök gefið upp mitt netfang í sífellu. Eftir að hafa rakið mig í gengnum efni þessara tölvupósta sýnist mér hins vegar að um nokkra Hirti hljóti að vera að ræða. Ég ákvað að kanna málið betur.

Fyrstu póstarnir sem bárust mér fjölluðu mikið um golf. Einhverjir gaurar að skipuleggja golfferðir saman og álíka. Svo fóru að berast mér málefni einhvers golfklúbbs og svo loksins ítarlegur póstur um málefni Úthlíðarklúbbsins, sem svo er kallaður. Það þurfti ekki mikla rannsóknarvinnu til að komast að því að þessi póstur átti að fara á Hjört Vigfússon, formanns áðurnefnds klúbbs.

Nú, svo fékk ég áætlun frá einhverri Þóru Fríðu um einhverja námshelgi á Stokkalæk. Í póstinum kom eftirfarandi fram: „Stokkalækur er tónlistarsetur sem þau reka hjónin Inga Ásta Hafstein og Pétur Hafstein.“ Eftir smá gúggl komst ég að því að þarna hafi pósturinn líkega verið ætlaður Hirti Yngva Jóhanssyni, væntanleg þeim sem er píanóleikari í Hjaltalín. Námshelgin hefur væntanlega verið sú sem getið er hér. Þetta virðist hafa verið bráðskemmtilegt og Hjörtur skilaði sé í ferðina þrátt fyrir að hafa ekki fengið póstinn.

Svo voru það leiðismálin. Margir póstar sem fjalla um legstein sem, að því er virðist, börn Gísla Andréssonar frá Hálsi í Kjós og Ingibjargar Jónsdóttur frá Gemlufalli í Dýrafirði voru að panta. Mér sýnist að þann póst hafi hann nafni minn Gíslason átt að fá. Þetta var fallegur skjöldur sem þau voru búin að velja á leiðið. Stuttu eftir leiðismálið sendi Sigríður Kristín Gísladóttir, sem er væntanlega systir Hjartar, netföng allra systkinanna, þau virðast vera átta í allt (Guðmundur, Jón, Halldór, Ágústa, Sigríður Kristín, Gísli Örn, Andrés Freyr og Hjörtur). Stór systkynahópur. En ég lét Sigríði Kristínu vita af því að netfangalistinn hafi farið í rangar hendur, sem sagt mínar. Engu að síður fæ ég nokkrum mánuðum síðar póst frá Jóni Gíslasyni um dómsmál sem þau systkinin höfðu átt í. Nú ég var auðvitað orðinn forvitinn um þessa fjölskyldu sem mér fannst ég líka farinn að þekkja ágætlega svo ég fletti upp og las um dómsmálið. Því lauk nú ekki vel fyrir þau. Ég vona að rangar tölvupóstsendingar hafi ekki haft áhrif á dómsniðurstöðu!

Jæja, þá er það Hjörtur Hjartarson, nemandi við FB, fæddur 1981. Hann var að biðja um yfirlit yfir þau fög sem hann hafði lokið við FB. Sem betur fer, fyrir okkur báða, eru upplýsingar um slíkt víst ekki sendar með tölvupósti, en hann fær þó að vita hversu mörgum einingum hann hafi lokið... þær voru fjölmargar og Hjörtur greinilega duglegur strákur (en auðvitað veit ég ekki hvaða einkunnir hann hefur fengið). Ekki fékk ég fleiri pósta um þetta mál. En að sjálfsögðu var forvitni mín vakinn um nafna minn Hjartarson. Hvaða gaur var þetta? Kom í ljós að um er að ræða Hjört I. Hjartarson sem starfar á skrifstofunni hjá ÁTVR og virðist líka halda úti þessari vefsíðu.

Jæja, þá eru það málefni rótarýklúbbsins. Hinn þriðja ágúst í fyrra sendir Ólafur Egilsson póst á einhverja Margréti Friðriksdóttur um einhverja heimsókn hinn 3. september. Já! Afmælisdaginn minn, þetta hlaut þá að koma mér við. En nei, um var að ræða heimsókn umdæmisstjóra Rótarý 2010-2011 til Rótarýklúbbs Seltjarnarness. Það var þá ekki flókið mál að fletta því upp að sá póstur átti að fara á Hjört Grétarsson, upplýsingatæknistjóra. Ekki fann ég mikið um hann með gúggli, en sýnist hann starfa á Upplýsingatæknimiðstöð Reykjavíkurborgar, fyrir nú utan að hann er í rótarýklúbbi á Seltjarnarnesi.

Seinna í ágúst bað Agnes Johansen, framleiðandi hjá Blueeyes, einhvern Hjört um „Daily Reports“ fyrir fimmtudag og föstudag. Ég veit ekki meira um það mál eða um hvaða Hjört er að ræða.

Nú um daginn barst svo erindi á sænsku frá Ninu Åkerberg hjá Transportstyrelsen í Örebro um ökuskírteinið mitt. Eða svo hélt ég í fyrstu, því eðlilega tók ég þetta fyrst til mín. Fór að hafa áhyggjur um að ég hefði týnt ökuskírteininu mínu eða álíka. Þegar ég fór að rýna í póstinn sá ég þó að þetta hlyti að hafa átt að fara á einhvern enn einn Hjörtinn. Google segir mér að það sé einhver Hjörtur Oddsson læknir í Örebro. Gæti verið hann. Kannski, kannski ekki.

Skömmu fyrir áramót barst mér tilkynning frá Velje BK í Danmörku um að einhver Haukur Páll væri velkominn til reynsluæfingar hjá liðinu í vikutíma í janúar. Ég er ekki alveg 100% viss hvaða Hjörtur átti að fá þann póst, en mér dettur helst í hug Hjörtur Freyr Vigfússon, framkvæmdastjóri Vals, en einhvern Hauk Pál, fyrrum Þróttara, má finna í herbúðum Vals. Mér sýnist líka að umræddur Haukur Páll hafi komist á æfingar hjá danska liðinu þrátt fyrir að boðskortið hafi lent hjá mér. Það var nú gott.

Sigþór, einhver pípulagnameistar, sendi mér fyrir stuttu þjónustusamning um vatnsúðakerfi. Ég svaraði honum og afþakkaði pent. Enda hef ég lítið við slíkt að gera, en benti honum á að tala við einhvern nafna minn.

Þá var mér send, á spænsku, ítarleg ferðaáætlun fyrir einhvern Hjört Jónsson til Santiago. Nokkrir kostir voru í boði, m.a. í gegnum París og Madríd. Þetta virðist spennandi ferð og ég óska nafna mínum góðrar ferðar (Hann átti að leggja af stað nú rétt fyrir helgi og ekki snúa aftur fyrr en 21. mars! Vona að hann hafi fengið flugmiðann og sé kominn á áfangastað).

Svo í dag er ég búinn að fá sent nokkrum sinnum lykilorð á áskriftarvef 365 miðla. Væntanlega einhver Hjörtur sem hefur gefið upp rangt netfang í upplýsingunum þar. Virðst hafa gleymt lykilorðinu og búinn að þrábiðja um nýtt. Vonandi hefur hann bara hringt í þá út af þessu. En nafni, ef þú ert að lesa þá er lykilorðið in3JHtz9.

Þetta er svona dæmi um það sem mér hefur borist bara síðasta árið. Þetta er mun meira og margt torlæst og dularfullt. Ég var satt að segja orðinn þreyttur og pirraður á öllum þessum röngu póstsendingum, þar til ég fór að skoða þetta betur og reyna að grafa þessa Hirti upp. Ég auðvitað svara öllum og reyni að leiðrétta mistökin, segi að pósturinn hafi sennilega ekki átt að fara til mín. En allt kemur fyrir ekki. Ég fæ þá bara póst til einhvers enn annars Hjartar í staðinn.

Hvað fæ ég næst? Aldrei að vita. En ég pósta því auðvita öllu hér á blogginn um leið!