30. mar. 2007

Það var svo mikil sumarfílingur í mannskapnum á Slottsskogsgatan 79b að við skelltum okkur á Tapasbar á miðvikudagskvöldið ásamt fríðu föruneyti. Mestmegnis í sumargleði en líka í tilefni þess að Lotta var að útskrifast. Fljótlega beyttist matardýrkunin í samdrykkju og rökræður um feminisma og kyngervi, sjálfsmynd og sjálfsímyndir.

Ég kom ekki hingað til að dansa heldur til að hugsa.

Og hlaupa - uppfærsla í dag. Tveimur mínútum bætt við hlaupatímann. Þetta gengur allt betur. Ég þakka nýju smúðímorgunmatarvenjum mínum.

Svo skilst mér að Steinn&Sigurrós séu væntanleg í maí!

28. mar. 2007

Nýja blöndunartækið

Joggur tekinn í dag. Ég átti víst að uppfæra yfir í stig tvö í jogg-áætluninni í dag:

A1-B2-A1-B2-A2-B2-A3-B2-A2-B2-A1-B2

A = Joggur
B = Gangur
n = mínútur


En ég var orðinn svo rútínuseraður að ég hélt við mig fyrsta stig. Það ætti ekki að gera mikið til. Uppfæri bara á föstudaginn.

Mamma hennar Jóhönnu gaf okkur grænmetisætunum svona blöndunartæki um daginn (e. blender). Tækið legið ónotað uppi í skáp síðan en núna - fyrst ég er kominn í svona rífandi sumarskap fannst mér ekki annað hægt að en að blanda mér svona drykk sem krakkarnir eru alveg vitlausir í og kalla Smoothie.

Svo á leiðinn heim úr joggnum kom ég við í ICA og valdi mér girnilegt grænmeti og ávexti.
Nú drekk ég dýrindis smúðí úr epla- og appelsínusafa, gulrót og banana með eplasídertopping.

Sælgæti!
Nú er bara vika í Amsterdamferðina langþráðu. Þar hef ég ekki verið síðan morguninn 1. september 2005 - þegar ég vaknaði upp fyrri allar aldir henti ferðatöskum inn í bílaleigubílinn og hentist af stað ósofinn, úrillur og stressaður út á Schiphol með 15 kíló í yfirvigt.

Fyrir stuttu fannst mér kunnátta mín í sænsku jafnmikil og kunnáttan í hollensku. Ætli sænskukunnáttan sé ekki nokkuð meiri núna. Ekki að ég hafi svo sem nokkra vitneskju um hvað ég kann í sænsku. Ég tala vart við nokkurn mann hér neitt. Nema þegar ég þarf að biðja um strætókort, inneign í símann eða bjór á bar.

Kannski ég ætti að fara að tala meira við Jóhönnu?

27. mar. 2007

Sæla

Göteborgs Posten segir að í gær hafi verið heitasti marsdagur síðan 1859. Þetta voru víst 18,9 gráður þegar best lét. Ég var nú svo sem lokaður inni mestan part dags. Náði þó að fara út og jogga í stuttbuxum og ermalausum bol. Afraksturinn var að sjálfsögðu skráður í hlaupadagbókina!

Ekki skil ég hvað allt þetta fólk er að gera sem hangir úti í sólinni við leik og skemmtun í Slottsskogen. Er fólk ekki í vinnu? Hvaða aumingjaskapur er þetta?

Í dag er þriðjudagur - útlit fyrir PubQuiz í kvöld - ég stundaði æfingar í sextugsafmælinu um helgina hvar leikinn var leikurinn Viltu vinna milljón eða Vem vill bli miljonär, eins og það heitir víst.

24. mar. 2007

Tók fram sumarjakkann, klæddi mig í hann og fór út. Þar voru allir. Slottsskogen uppfullur af fólki sem sat í grasinu, gekk um eða bara brosti framan í sólina. Fyrsti opinberi vordagurinn. Það á vel við enda skipt yfir í sumartíma eftir miðnætti.

Sextugsafmæli í kvöld - húrra fyrir því.
Þriggja ára afmæli á morgun.

23. mar. 2007

Jæja - þá er maður búinn að hlaupa/ganga 7,74 km í þessari viku á meðalhraðanum 7,45 km/klst. 0,8% af áætluðum endingartíma skónna liðin. Sigurðarmál segja 10-15 gráður og sól næstu dagana. Það held ég maður snæði ljöns á morgun hér í portinu - og hvur veit, grilli jafnvel.

21. mar. 2007

Joggur dagsins

Búinn að mæla hringinn. Hann er 3,87 km. Það er ágætis byrjun.

Sjá hér!

Nú er ég orðinn meðlimur í jogg.se. Þar get ég búið til hlaupaleiðir og mælt þær út. Haldið joggdagbók og allan fjandan. Sniðugt þetta internet!

Joggarinn

Annar joggur fór fram í dag. Gulla sendi mér jogg-áætlun fyrir byrjendur sem ég stúderaði í fyrradag og setti í framkvæmd í dag. Fyrsta vika er svona:

A1-B2-A1-B2-A2-B2-A2-B2-A1-B2-A1-B2

A = Joggur
B = Gangur
n = mínútur

Þannig hljóp ég samtals í átta mínútur og gekk í tólf. Fyrir utan fimm mínútna gang fyrir og eftir. Hálftíma sessjón í heildina. Heill Slottsskogshringur tekinn (Þarf að mæla hvað hann er langur).

Þetta er allt annað - ég dó ekki í þetta sinn!

Annars er orðin hefð að fara á PubQuiz á þriðjudögum. Þar vorum við í gær. Í síðustu vikur náðum við 9 réttum af 25. Í gær voru það 14. Þetta kemur hægt. Eftir tvær vikur vinnum við. Verðlaunin eru 400 króna inneign á barnum. Það má gera sér gott úr því. Ég eyddi einmitt 396 krónum þar í gær.

19. mar. 2007

Og svo stytti upp

Það hætti að snjóa um hádegisbil og vorið sneri aftur með sólina í farteskinu. Þá var ekki annað hægt að setja á sig nýju skóna og hlaupa út í Slottsskogen. Ekki veit ég hvað ég náði stórum hring. Kannski kílómetra, kannski tveimur. En hvað það var langt þá drap það mig næstum. Eftir nokkurt hlaup fór að gera vart við sig stingur í brjóstinu. Ég hljóp áfram. Þá fór stingur í kvið hægramegin að gera vart við sig. Ég hljóp áfram. Blóðbragðið fór að magnast í munninum og litlir hvítir dílar svifu fyrir augunum á mér. Ég hætti að hlaupa og labbaði, eða hálfskakklappaðist, í átt að búðinni. Ég var aðframkominn. Eitthvurt slím fór að renna uppávið, held ég úr lungunum og allir púlsstaðir æðakerfisins voru þrútnir, varirnar dofnar og suð fyrir eyrum.

En skórnir eru góðir og lappirnar á mér sáttar, það er bakið líka.

Á morgun reyni ég aftur.

Og svo fór vorið

Það sneri við og fór aftur heim. Hvar sem vorið á nú heima, fyrir sunnan a.m.k. Hér snjóar! Það verður því ekki farið út að jogga í dag. Sko - ekki byrjaður á jogg-lífstílnum og strax farinn að finna mér afsakanir fyrir að fara ekki út. Annars átti þetta að vera sumargjörningur hjá mér og það er ekki beinlínis sumar núna... ekki í dag.

Annars var farið í bíó í gær og séð the Departed. Það er góð mynd. Þar notar Scorsese lagið Gimme Shelter enn einu sinni. Þetta er í þriðja sinn sem hann notar það lag, svo ég viti til a.m.k.

18. mar. 2007

Sunnudagsbloggur

Það er fallegur sunnudagur hér. Hlýtt og sól. Það heltist hér yfir hagl og rok í um tvær mínútur. "Íslenskt veður!" hrópaði Jóhanna forviða.

Ég fór seint á fætur enda engin ástæða til að vera að rjúka framúr þegar maður hefur svo sem ekkert betra að gera en að liggja í rúminu og hugsa. Ég kom hingað ekki til að dansa, heldur til að hugsa!

En letikastinu lauk og ég hoppaði á fætur og fór að flokka. Flokka rusl. Hér í Svíþjóð er manni nefnilega gert auðvelt fyrir að flokka rusl. Þannig eru t.a.m. dagblaðagámar við hliðina á sorptunnunum hér heima. Einnig er þar sérstök tunna fyrir lífrænt sorp. Svo er hér úti á horni móttökustöð fyrir endurvinnanlegt efni, s.s. gler, plast, pappa og dagblöð, einnig er þar tekið við rafhlöðum og garðaúrgangi. Þessar stöðvar eru reyndar tvær hér steinsnar, ein í vestur í um þriggja mínútna labbi, hin í austur í um tveggja mínútna labbi.

Svo gerðist hið stórmerka í gær. Ég keypti mér jogg-skó. Nú verður joggað sem aldrei fyrr, enda hef ég aldrei fyrr joggað. En með þessa jogg-paradís í hverfinu, Slottsskogen er nú ekki annað hægt. Svo nú verður farið út að hlaupa í hádeginu. Ekki að hlaupa á eftir strætó eða kvenfólki heldur bara að hlaupa eitthvað út í bláinn til þess að hlaupa. Það er kannski kjánalegt en eitthvað þarf ég að gera til að sporna við að folkölið setjist utan á mig og skrokkinn minn allan.

Svo mótmælti ég í gær.

16. mar. 2007

Vordraumar

Hér vorar sífellt. Og með vorinu vakna draumar, já og kannski ástarþrá í brjóstum á ný. Kolbeinar líta hver annan ylhýrum augum og planéra veiðferð á til Smálands. Stuga hefur verið bókuð og árabátur fylgir með í kaupunum.

Er ekki tilvera dásamleg.

Fyrir aftan mig skýn sólin og smáfuglar kvaka, tísta og syngja, sitjandi á trjágreinum sem ber við bláan himin. Í dag ætla ég að vinna vinnuna mína og sjá svo til hvort kannski verði enn sól á lofti þegar ég losna. Þá vil ég út. Út vil ek. Ekki til að dansa, heldur til að hugsa.

Þessi bloggur hefur breyst í samræðuvettvang á milli mín og Sigurðar...

14. mar. 2007

Pub Quiz

Ég tók mér langan göngutúr eftir vinnu í gær. Hann leiddi mig á Notting Hill í hið vikulega Pub Quiz. Við gátum nú ekki nema 9 spurningar af 25, en það stafaði reyndar mestmegnis af vankunnáttu í sænskum samfélagsmálum - og reyndar því að ég bara hreinlega vissi ekki hvað höfuðborg Möltu heitir. Ég veit það núna og mun aldrei gleyma.

Ég held við förum á Pub Quiz næsta þriðjudag.

13. mar. 2007

Vinnutörn

Hér hef ég að mestu setið síðustu 24 tímana. Hlekkjaður við tölvuskjáinn.
Ég fékk mér þó göngutúr í blíðunni í gær. Hvílík dásemd. Eins og íslenskur sumardagur í kaldari kantinum. Sól, 9 stiga hiti, gola. Úti á götum sá maður skyndilega fólk. Gamlar konur, ungar konur sem ýttu barnavagni á undan sér, börn, gamlir kallar og verkamenn. Aðrir voru líklega í vinnunni.

Nú er allt að vakna til lífsins. Og hér er ég glaðvakandi snemma að morgni og vinni.
Nú ætla ég að standa upp, malla kaffibaunir og hellar þeim í könnu og hella út á þær vatni. Láta standa stund, pressa með síu og drekka.

Annars gaf ég mér kvoletístund í gærkvöldi með folköl og brauðsneið fyrir framan sjónvarpið og horfði á 100 Höjdare. Það er alveg frábær þáttur þar sem hinir heimsfrægu Filip og Fredrik heimsækja skrítið fólk í Skandinavíu. Mæli með því við alla að kíkja á þættina. t.d. klippur hér.

12. mar. 2007

Nálgast vorið?

Þeir sögðu mér það í óspurðum fréttum að úti væri 9 gráðu hiti. Enda heyri ég fuglana tísta og gái ég snöggt út um gluggann sé ég sólina skína yfir Slottsskogen. Kannski er vorið bara rétt ókomið. Kannski.

Ég drekk amk kaffið mitt úr bollanum mínum. Kaffið malaði ég áðan í kaffikvörninni sem ég festi á eldhúsvegginn í gær.

Maður finnur sér nú sitthvað til dundurs hér í henni Gautaborg.

11. mar. 2007

Þunnudagur

Það var haldin hátíð í gær. Auðvitað fór það svo að Ark vann.

Hér ætlaði ég að fara að röfla eitthvað um endurvinnslu en nú nenni ég því ekki

farinn að elda

10. mar. 2007

Laugardagur og svona

Thad er laugardagur. Af thví tilefni, og thar sem í dag er fyrsti frídagurinn minn í... tja sídan 25. febrúar, var farid í baejarferd. Verslud var peysa í H&M og baekur í Wettergrens og áfengi í Systembolaget og matur í Hemköp. Semsagt allt saman saensk fyrirtaeki.

Í kvöld er svo hátíd. Lokakvöld Melodifestivalet. Nú raedst hvor Ark komist áfram. Lagid má sjá og heyra á Músikbloggnum.

9. mar. 2007

Ferðalög

Ferðir og ferðalög hafa verið fyrirhuguð.

Amsterdamferð verður farin um páskana. Ó,hvílík dásemd! Svo er það Kolbeinsferð í Småland fyrstu helgina í maí. Ó sá unaður. Íslandsferð í maí og júní og partur af henni er veiðiferð í Miðfjarðará. Ó öll sú dásemd og dýrð

dregur okkur ómótstæðileg til sín....


Annars vil ég minna á að eftir 15 maí hefst beint flug til Gautaborgar frá Reykjavík. Einnig er hægt að komast hingað í gegnum Köben. Nú eða þá frá London. Hingað er reyndar hægt að koma frá London fyrir aðeins 12 pund.

Það er ekki mikið...
hmmmm

8. mar. 2007

Mogunstund

Ekki veit ég hvað klukkan var þegar GP skall á forstofugólfið hjá okkur. Það var a.m.k. enn myrkur úti. Við vöknuðum bæði með andfælum, enda ekki vön umgangi um þetta leyti sólarhringsins. Við létum þó eiga sig að fara framúr til að aðgæta, enda virtist ekki um meiri umgang að ræða. Blaðið lá enda kyrrt á forstofugólfinu þar til ég sótti það uppúr hálf níu.

Jú, við fengum okkur sum sé prufuáskrift af Göteborgs Posten og fyrsta eintakið kom í dag. Tilveran er smátt og smátt að skjóta rótum á milli okkar og hér.

Jack Johnson og vinir hljóma upp herbergið hvar ég sit við vinnu en úti tísta hvorki fuglar né aðrar verur. Þokumistur liggur yfir öllu svo vart sést í Slottsskogen sem þó er ekki nema í um 100 metra fjarlægð frá okkur.

Samt finn ég að vorið er þarna, rétt handan við skóginn. Kannski það komi í heimsókn um helgina!?

7. mar. 2007

Condecco

Stundum, af og til, þegar ég er kominn með algjört ógeð á að hanga einn heima. Öllu heldur vera einn við vinnu heima hjá mér. Varla er hægt a tala um að ég hangi einn heima þegar ég sit sveittur við vinnu. En stundum fer ég út. Pakka tölvunni ofaní tösku og hleyp út á kaffihús. Condecco heitir það og er eitt af fjölmörgum útibúum hér í bæ. Þetta er í þriðja sinn sem ég kem hingað og í dag, eins og í öll önnur skipti, það er hin tvö skiptin, bæði hin, er í gangi vídeóupptaka af tónleikum Robbie Williams. Mér þykir það undarlegt sjónvarpsefni því (blessunarlega) fylgir því ekki hljóð. Í hver sinn sem ég lít upp af tölvuskjánum blasir því við mér Robbie þessi, hlaupandi, dansandi, hoppandi og í kringum hann misklæddar konur.

Kannski er þetta ekkert skrítið...

Annars eru helstu tíðindi dagsins (gærdagsins) að mokkurinn birti eftir sig færslu. Þar les ég að hann les mínar færslur og það er gott til þess að vita.

Honum og Sigga og fleirum, til ánægju, eflaust, tilkynni ég að ég skal hætta að nota bloggur í karlkyni. Reyndar hætta að nota orðið bloggur yfir höfuð og nota þess í stað vegó, sem stuttstöfun á orðinu vefdagbók (borið fram eins og LEGO).

Eða ekki

4. mar. 2007

Hjörtur og hirtirnir


Það viðrar svo vel hér í Gautaborg í dag svo ég fékk mér göngutúr um Slottsskogen hér við hliðina. Þegar ég var á vappi á milli trjánna tók ég þessa mynd. Ef vel er að gáð má sjá dádýr á miðri myndinni. Þau búa þarna í skóginum og hoppa glöð og fegin um.

Það er reyndar merkilegt að steinsnar frá þar sem ég fann dádýrin una sér frjáls í skóginum voru hirtir lokaðir innan girðingar skógargestum til yndisauka.

Ásamt páfuglum, öndum hestum og öðrum dásemdum náttúrunnar.

Lífið er alveg ágætt stundum... sérstaklega þegar veðrir er svona yndislegt.

Útvarp

Á sunnudögum frá 10-12 er hægt að hlusta á Íslendingaútvarp sem starfrækt er hér í Gautaborg. Ég ákvað að athuga hvað þar færi fram og stillti á 103,1. Síðasta hálftíman hefur ómað klassíks tónlist hér um allan salinn. Mér heyrist þetta vera Wagner mestmegnis, a.m.k. Brúðarmarsinn hans hérna áðan og hreinlega heyrist mér þetta bara vera Lohengrin komplett...

Jóhanna kallar á mig í morgunmat, sem er nú nær því að vera hádegismatur...

3. mar. 2007

laugardagur til vinnu

það er svo sem ekki mikið mál að vinna um helgar. ég stíg upp úr rúminu og sest við skrifborðið, jafnvel á nærklæðunum einum, með úfið hár og óþrifinn. í dag verður unnið og unnið þar til kvöldið kemur.

internetið kom en þá fór rafmagnið...

rafmagnið kom aftur... og internetið fór ekki

við skulum vona að internetið og rafmagnið uni sér saman hér á Slottsskogsgatan 79b

2. mar. 2007

Forvitnilegt

1. Närjeholme, Sodermanlands Lan, Sweden
2. Kópavogur, Gullbringusysla, Iceland
3. Tromsø, Troms, Norway
4. Huddersfield, Kirklees, United Kingdom
5. Närjeholme, Sodermanlands Lan, Sweden
6. Ishøj, Kobenhavn, Denmark
7. Reykjavík, Gullbringusysla, Iceland
8. Bobigny, Ile-de-France, France
9. Tromsø, Troms, Norway
10. Keflavík, Gullbringusysla, Iceland
11. Göteborg, Vastra Gotaland, Sweden
12. Paris, Ile-de-France, France
13. Reykjavík, Gullbringusysla, Iceland
14. Kópavogur, Gullbringusysla, Iceland
15. Reykjavík, Gullbringusysla, Iceland
16. Copenhagen, Staden Kobenhavn, Denmark
17. Reykjavík, Gullbringusysla, Iceland
18. Chicago, Illinois, United States
19. Kópavogur, Gullbringusysla, Iceland

Bredbandsbolaget

Á dyrnar hér bankaði vinalegur maður. Hann stakk mæli í símainntakið og hljóp niður í kjallara. Hann kom aftur upp með internetið

nú er veröldin bjartari

svo er ég líka búinn að nota netið til að bóka far til Amsterdam um páskana!

skúrinn - skúrin

Já. Sá mysingur hefur verið uppi að ég muni aðeins staldra við á landinu (Íslandi) í þrjá daga þarna í maí. Það er nú ekki svo heldur verða þeir þrjátíu fimm.

Þremur dögum eftir sautjánda júní flýg ég til baka hvert ég kalla heim.


Eriksnet bjargar deginum...

á mánudag munu höfuðstöðvar Bredbandsbolaget brenna... ég hringdi í þá áðan og tilkynnti þeim.

1. mar. 2007

Blue mountain

Það er nokkuð betra í mér skapið í dag. Hvers vegna, veit ég ekki. Enn er netlaust heimilið þó vissulega sé þar komið mótald eitt. Ég vorkenni því greyinu því það er eflaust allt af vilja gert. Það hamast og hamast en nær ekki að miðla okkur neinu neti, hvorki þráðlausu né þræddu.

Kannski er skapið betra því ég hellti úr skálum minnar reiði yfir sænskan Åkon einhvern, eða hvað hann nú heitir. Hann vinnur hjá Bredbandsbolaget við að hlusta á reitt fólk. Svo ég hrindi í hann á níundatímanum í morgun og spurði hann kurteislega hvort ég mætti spjalla örlítið við hann á ensku (því ekki get ég fyrir mitt litla líf tjáð mig um netvandræðin á sænsku, og varla heldur skammað nokkrar sál, a.m.k. ekki með neinum árangri, því mér skilst að sænskan mín sé í besta falli krúttleg og skondin). Åkon, eða hvað hét hann, sagði rogginn að auðvitað gæti ég talað ensku við hann, hann væri sérlega fær á enskri tungu og hún væri honum í raun sem annað móðurmál.

Svo ég þyrlaði upp á hann skömmum og leiðindum og einni og einni hótun og lauk svo máli mínu á því að segja: "Or I simply have to take my business elsewhere!"

Åkon sagðist ekkert geta gert en bað mig vinsamlegast að endurskoða hug minn því hann vonaði svo sannarlega að ég héldi viðskiptum mínum áfram við fyrirtækið. Ég hummaði eitthvað og hnussaði og ætlaði svo að biðja um að fá að tala við yfirmann hans eða einhvern sem gæti hjálpað mér þegar sambandið slitnaði og góðleg konurödd tjáði mér á sænsku að því miður væri ekki nægileg inneign á kortin mínu til að halda samtalinu áfram.