Óvenjuleg voru hljóðin að utan þegar ég lagði höfuðið á koddann, ferðabúinn til draumalandsins. Bílaniður og bátanna neðan frá síkinu, hlátrasköll og söngur fólks á gangi og bjölluhljómur hjólanna ómar í takt við hljóm klukkunnar í turni vesturkirkju. Jú, ég er á nýjum stað. Fluttur. Íbúi í miðborg Amsterdam.
Á eftstu hæð horfi ég út um gluggann minn á húsaþökin í nágrenninu og lít niður á Prinsecgracht fyrir neðan mig hvar er stanslaus umferð báta á milli húsbáta sem liggja fastir við land og á landinu þurfa fótgangandi að vara sig á hjólunum sem geysast fram hjá kaffihúsnum og kránum sem standa á hverju götuhorni.
Amsterdam heitir hún borgin sem ég bý í. Loksins laus úr Geuzeveld, ekki lengur galinn hani heldur orðinn lítill prins. Nóg er plássið í herberginu mínu sem ég fyllti af húsgögnum, hef ekki búið svo vel síðan ég bjó í miðborg Reykjavíkur. Úr einni miðborg í aðra. Svona er lífið. Lífið mitt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli