Sigurður Ólafsson Stokkhólmsbúi ásamt með fleiru hvetur mig til dáða á ritvellinum. Ég ku víst vera svo skemmtilegur. Lofa ég þó öngvum skemmtilegheitum hér heldur mestmegnis kvabbi.
Til þess að komast inn í félagslega leigumarkaðinn (sem húsgæslumaður (löng saga)) þarf ég að fá staðfestingu frá borgaryfirvöldum um að ég sé skráður íbúi í Amsterdam. Til þess að fá slíka staðfestingu þarf ég að framvísa dvalarleyfi í Amsterdam. Til þess að fá dvalarleyfi í Amsterdam þarf ég að vera skráður íbúi í Amsterdam. Til þess að vera skráður íbúi í Amsterdam þarf ég að að hafa dvalarleyfi í Amsterdam. Þess vegna sækir maður um dvalarleyfi og skráir sig sem íbúa á sama tíma. Það gerði ég í júlí. Til þess að fá skráningu þarf ég að framvísa húsaleigusamningi og passa og fæðingarvottorði. Ef maður er fæddur í landinu sem passinn er gefinn út þá er passinn látinn nægja. Ef maður er fæddur annarsstaðar þá þarf maður að fá fæðingarvottorð, með stimpli frá fæðingarlandinu. Ég er fæddur í Noregi. Ég er ekki skráður íbúi í Amsterdam af því að ég sótti ekki dvalarleyfið mitt. Ég sótti ekki dvalarleyfið mitt af því að tilkynningin um að það væri tilbúið var send á gamla heimilisfangið mitt. Þeir sendu mér tilkynninguna á gamla heimilisfangið af því að ég var skáður þar í fyrra. Í sumar sendi ég inn umsókn um framlengingu dvalarleyfis auk þess sem ég tilkynnti breytingu á skrásetningu. Þar liggur hundurinn grafinn. Dvalarleyfið var endurnýjað en umsókn um breytingu á skáningu var send áfram til skráningardeildar (sem er næsti bás við dvalaleyfisendurnýjunardeild) og þar á leiðinni (líklega í hólfnu sem á stendur "gögn send áfram frá dvalarleyfisendurnýjunardeild til skráningardeildar) týndist hún. Dvalarleyfisendurnýjunardeild og skráningardeild eru til húsa í Slotervaart sem er í 40 mínútna fjarlægð frá núverandi heimili mínu (hvar ég er einmitt ekki skráður). Það merkir ein klukkustund og tuttugu mínútur fram og til baka, undir venjulegum kringumstæðum. Þetta uppgötvaði ég þegar ég hafði farið að húsnæðinu sem dvalarleyfisdeild (athugið, ekki dvalarleyfisendurnýjunardeild) er til húsa eftir að mér var vísað þangað frá Ráðuhúsinu. Dvalarleyfisdeild er í 20 mínútna fjarlægði frá núverandi heimili mínu, í hina áttina. Ráðhúsið, hvar staðfestingumskráningudeild er til húsa er aðrar tíu mínútur frá heimili mínu og dvalarleyfisdeild. Samtals gerir þetta tvær klukkustundir. Ferðalag mitt var því svo: Heimili mitt - Ráðhús (10 mín) . Ráðhús - heimili mitt (10 mín) . Heimili mitt - Dvalarleyfisdeild (20 mín) . Dvalarleyfisdeild - Dvalarleyfisendurnýjunardeild og skráningardeild (60 mín) . Dvalarleyfisendurnýjunardeild - Heimili mitt (40 mín) . Biðtími í ráðhúsi (10 mín) biðtími í dvalarleyfisdeild (5 mín) . Biðtími og afgreiðlutími í Dvalarleyfisendurnýjunar- og skráningar deild (35 mín) = Skráning: Þrjár klukkustundir og tíu mínútur (plús þrír virkir dagar sem tekur skráningu að taka gildi).
Pirraður - ehm, já, en bara smá.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli