8. des. 2004

Eitt sinn gerðist það í Reykjavík að ég fór ásamt þáverandi kærustu, MMJ, í tanngarð. Var það að hennar frumkvæði að við parið létum tannlæknanema kíkja á settin okkar, í sitthvoru lagi en þó saman, en ég hafði þá slegið ferð á tannlæknastofu á frest í nokkur ár. Eftir að tanlæknanemi á, tja, öðru ári eða eitthvað, var búinn að skoða í mér settið og kíkja á röntgenmynd af djásnunum leit tannlæknanemi af, tja fjórða ári eða eitthvað, á kransinn. Svo horfði hún, tannlæknaneminn, djúpt í augun á mér og ég varð vandræðalegur því að þáverandi kærasta lá á næsta bekk, að vísu með hendur einhvers gaurs í kjaftinum á sér, skárra þar en annarsstaðar hugsaði ég þá, og tilkynnti mér að settið væri í lagi en vísdómstönnin lægi á taug, tannlæknaneminn altso ekki fyrrverandi kærastan. Hún spurðið mig, með blik í auga, hvort ég fengi ekki ægilega verki þarna í vinstri kjálkann. Nei, svaraði ég feiminn og spurði: Ætti ég að fá slíkt? Tja, sagði hún og strauk mér um vangann, ef ekki nú þá að minnsta kosti á næstunni. Sjáðu til, hún sýndi mér röntgenmyndina af tanngarðinum neðri, hér er tönnin og hér er taugin. Ég skoðaði myndina og ímyndaði mér hvað hún var að segja. Ef þú lætur ekki taka tönnina bráðlega þá á hún eftir að leggjast ofan á taugina, ég leit á básinn við hliðna til að athuga hvort gaurinn væri búinn að leggjast á þá fyrrverandi. Svo var ekki. Nújá, svaraði ég og smelli í góm, eigum við þá ekki bara að kippa henni upp snöggvast. Tannlæknaneminn af fjórða ári, hugguleg snót, asísk í útliti, leit á mig skásettum augum, glotti hæðnislega og svaraði svo með hægð: Neinei, við ráðum ekkert við svona stóraðgerðir hér, þú verður að fara til alvöru tannlæknis.

Nú eru liðin tvö ár og MMJ ekki lengur kærastan mín en í staðinn kominn ægilegur verkur í hægri kjálkann. Ég get nú ekki sagt að þetta séu góð skipti. Næst þegar ég eignast kærustu ætla ég að láta hana senda mig til tannlæknis.

Engin ummæli: