Ég hef nú ekki lagt það í vana minn að halda uppi mikilli pólitískri gagnrýni hér á blogginu mínu. En þar sem ég er búinn að ráðstafa selluskrifum í annan, og líklega þarfari málaflokk, þykir mér ekki annað hægt en að benda á enn eina vitleysuna úr höfði Munda Svans. Hann ritar í dag grein á Deiglunni þar sem hann virðst verja mannsmorðin í Japan í lok seinni heimsstyrjaldar. Jæja, kannski er hann ekki að verja mannsmorðin. En hann lætur í veðri vaka að kjarnorkusprengingarnar í Hiroshima og Nagasaki hafi verið ill nauðsyn.
Ég verð alltaf jafn hissa þegar ég sé slík skrif á prenti. Sér í lagi frá vel menntuðum og nokkuð greindum einstaklingum eins og Guðmundi Svanssyni.
Hvað sem gekk á í hausnum á Truman þegar hann veitti leyfi fyrir að kjarnorkusprengjur væru notaðar gegn Japönum fáum við líklega aldrei að vita. Enda segir Mundi það sjálfur.
Hins vegar hefur Stefán Pálsson, sem reyndar er þekktur fyrir að vera nokkur hamhleypa þegar kemur að pólitískri orðræðu, fyllilega rétt á að fordæma árásirnar. Enda eru þær eitt viðbjóðslegasta voðaverk í sögu mannkyns og engu skárri en voðaverk nasista um sama leyti. Að mínu mati virðist sagnfræðilegt mat Stefáns á ákvarðanatöku í kringum sprengingarnar líka nokkuð trúverðuglegt.
Það virðist aldrei hafa komið alvarlega til greina að nota kjarnavopn gegn nasistum í Þýskalandi. Það var heldur engin nauðsyn að nota þau gegn Japönum, það hafa sagnfræðilega heimildir staðfest í hvívetna. Japanir virðast einfaldlega hafa verið fórnarlömb aðstæðna. Það var hentugt að sprengja Japan upp, jafn fjarri "siðmenningu" og eyjurnar eru. Þeir voru enda bandamenn nasista og "réttlætanlegt" að nota gereyðingarvopn gegn þeim. Nuk'em bastards.
Bandaríkin höfðu þá nýlega orðið fyrir fyrsta alvarlega áfalli sínu í hernaði þegar Japanir sprengdu upp Perluhöfn. Sú árást var miðuð að hernaðarmannvirkjum og hernaðarlega má jafnvel réttlæta þá árás. Ef hernaðaleg réttlæting er til yfir höfuð. Kjarnorkuárás Bandaríkjamanna var meðvitað miðuð að því eyða eins mörgum saklausum mannslífum og kostur var. Sú aðgerð verður aldrei réttlætt, hernaðarlega eða á annan hátt. Árásirnar á Nagasaki og Hiroshima voru eingöngu til þess fallnar að hræða óvini Bandaríkjanna. Að sanna mátt þeirra. Að berja bandamenn nasista til hlýðni. Hún var ekki ill nauðsyn. Hún var ekki hernaðarleg nauðsyn. Hún var að öllu leyti óréttlætanleg.
Stefán Pálsson hefur full frelsi til að draga þær ályktanir sem hann vill, hversu sögulega réttar þær eru. Reiði hans er að öllu réttlætanleg. Hún er í orði og beinist ekki að saklausum mannslífum. Hún beinist að ófyrirgefanlegum voðaverkum. Guðmundi Svanssyni færi betur að taka ekki upp hanskann fyrir Bandaríkjamenn í þessu máli. Tíma okkar allra er varið betur í annað.
Bandaríkjamenn eru fyrsta og eina þjóðin til að nota kjarnavopn gegn öðru ríki. Með því gerðust þeir sekir um fordæmanleg voðaverk. Vonandi hefur mannkyn lært af reynslunni og vonandi halda þjóðir heimsins að fordæma gjörðir þeirra.
Sagan hefur enda dæmt Bandaríkjamenn af þessum verknaði og þeim er ekkert til málsbóta. Ekki neitt.
2 ummæli:
Heir heir frændi!
..eða er það heyr heyr :)
Skrifa ummæli