27. sep. 2011

Þriðjudagur: Næs

Össur Skarphéðinsson var svalur á fundi allsherjarráðs Sameinuðu þjóðanna í gær. Hann fjallaði um þróunaraðstoð og umhverfismál og framlag Íslendinga til þeirra málefna og hann lýsti því yfir að Íslensk stjórnvöld styddu stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna. Það var djörf (en að mínu mati sjálfsögð) yfirlýsing og gengur lengra en flestir kollegar hans í nágrannaríkjum okkar þora að gera. Með þessu stillir Össur okkur Íslendingum á þann stall sem ég vil sjá okkur vera á í augum ríkja heims, sem friðelskandi og umhverfisvæn þjóð sem beitir sér fyrir mannréttinum og gegn misrétti, óháð skoðunum ráðandi ríkja. Ég vona Össur og komandi ráðherrar muni halda okkur á þessum stalli að þessi tónn muni óma frá Íslendingum um komandi framtíð.

---

Annars var búslóðin okkar sótt í morgun svo nú er eiginlega allt klárt fyrir flutning frá Svíþjóð. Nokkur tilhlökkun að flytja, svona þannig séð. Þó í aðra röndina langi mann ekkert að yfirgefa Svíþjóð. En það er ekki á allt kosið.

18. sep. 2011

Undarlegar afleiðslur

Það er margt skrítið í þessum heimi og sumt jafnvel ofar mínum skilningi. Mér finnst til dæmis óskiljanlegt að ef ég t.d. gagnrýni skilaboðin sem felast í þessari mynd



sé hægt að túlka það á þann veg að ég vilji að konur eigi frekar að líta svona út:


Ég einfaldlega fatta það ekki.



16. sep. 2011

Íslenska þrjóskan

Jæja, það þurfti að koma til þess að Bandaríkjamenn beittu þvingunum vegna hvalveiða Íslendinga. Sama hvað mönnum finnst, hvort það sé vottur um hræsni eða tvískinnungshátt Bandaríkjamanna, hvort þessar veiðar séu löglegar skv. einhverjum skilgreiningum og veiðarnar sjálfbærar eða hvað fólki finnst um hvalveiðar yfir höfuð, er sorglegt að það hafi þurft að koma til þessa. Vegna þess að þessar veiðar virðast engu raunverulegu máli skipta fyrir Íslendinga.

Mér virðst málflutningurinn mestmegnis snúast út á að Íslendingar eigi rétt á að veiða hvali í eigin lögsögu og að önnur ríki hafi ekkert með að vera að skipta sér af því. Og ef önnur ríki skipta sér af því, þá verða menn enn þverari í þessari afstöðu sinni, og dettur ekki í hug að gefa sig, í einhverri undarlegri þrjósku sem blásin er upp af  ömurlegu þjóðarstolti.

Og nú hótar Bandaríkjaforseti okkur og þá er nú viðbúið að þetta lið sýni enn meiri þvermóðsku og neiti nokkurn tíma að gefa sig.

Annars er stórundarlegt að ríkisstjórn, þar sem sjávarútvegsmál eru undir stjórn svokallaðs græningjaflokks, skuli halda hvalveiðum til streitu og, ekki nóg með það, verja þær fram í rauðan dauðann.

Obama waives sanctions on Iceland whaling


15. sep. 2011

Búnsósulandið

Ég nenni ekki að gagnrýna íslenska fjölmiðla. Bendi þess í stað á stórgóða fjölmiðlarýni Marra á Smugunni. Nei, ég ætla þess í stað að fjalla um hina stórgóðu fjölmiðlun hér í Svíþjóð. Svíar eru meistarar í gerð sjónvarpsefnis og skarar þar sænska ríkissjónvarpið (SVT) framúr. Umræðuhefðin hér í Svíþjóð er nefnilega upplýst og gagnrýnin samræðuhefð, eins og ég hefi nefnt áður á þessum bloggi, þar sem hlutirnir eru ekki bara málaðir svart og hvítt heldur reynt að nálgast viðfangið frá mörgum hliðum.

Ég get, og mun, fjalla um nokkra þætti í sænska sjónvarpinu sem íslenskt fjölmiðlafólk getur tekið sér til fyrirmyndar en nú ætla ég að fjalla um einn þátt sem ég sá um daginn: Landet Brunsås, sem mætti kalla Brúnsósulandið á gamla góða. Þættirnir snerta kannski ekki íslenska þjóðarsál beint, enda fjalla þeir um sænska matarmenningu. En það er þó margt sameiginlegt með sænskri og íslenskri matarmenningu, t.d. gengdarlaus kjötneysla og áhersla á unnar matvörur. Í þættinum er kafað í matarmenningu landans, ráðist á mýtur og hlutirnir settir í samhengi. Þetta er þjóðfélagsgagnrýni sem kemur við kauninn á fólki því ráðist er á allt að heilaga stund á hverju heimili, kvöldmatartímann og persónulegar venjur.

Þessir þættir eru ágætis dæmi um ákveðið stef sem er áberandi í sænskum fjölmiðlum: Beitta samfélagsgagnrýni.
Svíar virðast óþreytandi við að benda það sem miður er og betur mætti fara. Þeir spyrja sig í sífellu: Er þetta rétt, er þessu best hagað svona, getum við gert betur, hvers vegna eru hlutirnir svona? Samt sem áður, og líklega þess vegna, búa Svíar í einu huggulegasta og öruggasta samfélagi veraldar. Það er ekki vegna þess að þeir séu svo óskaplega ánægðir með sjálfa sig og nota hvert tækifæri til að upphefja sig (slíkt er beinlínis bannað samkvæmt óformlegum venjum samfélagsins). Nei, þeir gagnrýna hátt og snjallt, og ekki með því að rífast um hlutina, nei, heldur ræða þá. Þetta mega Íslendingar temja sér og íslenskir fjölmiðlar ýta undir.

(En auðvitað eru Svíar óskaplega ánægðir með sig sjálfa í laumi.)

Hér er svo linkurinn á þættina. Veit svo sem ekki hvort hægt sé að horfa á þetta fyrir utan Svíþjóð.

Tack fyrir.

8. sep. 2011

Önnur færsla sem lenti í Drafts:

Kona í síðum kjól stendur á brúnni og horfir hugsandi niður í grábrún síkið. Við hliðhennar stendur sonur hennar, fimm ára á að líta og borar í nefið. Maður á hjóli reykir pípu. Heldur með annari hendi við stýrið en heldur á dagblaði í hinni. Bátur liðast hjá, fagurgulur með, nýlega málaður.

Ég sit við skrifborðið á þriðju hæð og fylgist með út um gluggann.

Svona er dagar mínir, sjúkir en fagrir.

Gömul færsla sem ég fann í drafts:

Hér er skítkalt. Sem er gott. Ég kann ákaflega vel við kulda, það er sé ég í stakk búinn fyrir hann. Það er ósköp notalegt að þeysast um á hjólinu og finna kuldann bíta í kinnarnar á meðan aðrir partar líkamans eru vel varðir gegn honum. Þökk sé vetrarjakkanum góða, hlýjum gallabuxum, vetlingum og húfu var ég eins og grænn riddari á brúna fáknum mínum. Á svona dögum er Amsterdam sérlega falleg.

Ég reit grein um þjóðsönginn á selluna í dag. Hafði svo margt að segja að ég náði ekki að segja allt sem ég vildi segja. En ég segi það bara seinna. Annars hef ég bara fengið heilmikið respons vegna greinarinnar, sem er gott

Góður dagur, annars, hófst á kvikmyndinni Incident at Loch Ness sem Zak Penn leikstýrir og fjallar um Werner Herzog sem leikur sjálfan sig í myndinni. Eitt orð (svo ég vitni í MVB): Brilljant!

Svo hitti ég hina huggulegu Jóhönnu frá Svíþjóð á bókasafninu hvar við sátum og lærðum saman, sem var gaman.

Í kvöld verður horft á Weapons of Mass Deception.

Góðar stundir

7. sep. 2011

Haustverkin

Það er farið að hausta og á þessum tíma hefst nýr kafli eins og vanalega. Þá fer maður að setja sér markmið og heit af ýmsu tagi. T.d. er ekki óalgengt að bloggarar ákveðið að fara að blogga meira og breyta útlitinu á bloggnum sínum og henda inn nokkrum færslum með litlu millibili, kannski í eina til tvær vikur. Þetta hef ég gert á hverju ári og verður ekki brugðið út af vananum nú. Svo hér koma hinar árlegu breytingar á ritstjórnarstefnunni. Á ritstjórnarskrifstofunni hefur verið ákveðið að auka við efnistök á þessum bloggi og verður nú í vetur helgað eftirfarandi, ekki í neinni tiltekinni stigsröð:

Bjórbruggun
Í afmæligjöf frá Jóhönnu fékk ég m.a. bók um bjórbruggun. Ég hef verið að blaða í bókinni og hún virðist stórgóð, skýr og skemmtilegt og blæs í mann áhuga og innspírasjón. Mun ég skrá niður bruggkladdann hér.

Málfræði
Eins og ávallt verður fjallað um mál, málnotkun og málfræði. Jafnvel þýðingar og staðfæringar.

Umhverfismál
Röflað verður um umhverfismál og sjálfbærni eins og kostur er.

Nói
Uppvöxtur drengsins mun jafnvel fá sitt pláss.

Önnur mál Eftir því sem ástæða er til. En reynt verður að halda sér við meginefnistökin hér að ofan.


Svo þið lesendur þessa bloggs hafið til margs að hlakka og er ég viss um að umræðan í ummælakerfinu verði líflegri en nokkrusinni fyrr.

6. sep. 2011

Talið

Við feðgar fórum yfir tvívaramælt lokhljóð, fráblásið og ófráblásið í dag. Drengurinn hafði þó meiri áhuga á að æfa tvívaramælt sveifluhljóð. Gengur betur næst.

Hvað kostar hvert smit?

Sprauti sig inni á miðstöðinni - mbl.is:

'via Blog this'

Þessu ber kannski ekki að fagna. En þetta er líklega þarfaverk. Annars er biturt að þurfa í lokin að rýna í hvað hvert smit kostar, samfélagið í peningum. Ekki nóg með ógæfu viðkomandi sem smitast. It's all about the money.