31. mar. 2009

vettvangur.com

Ég notaði helgina í að búa til vef. Vettvangur.com heitir hann og er Sigurður Ólafsson upphafsmaður hans. Þar ætlum við Siggi, og vonandi fleiri, að skrifa um okkar hugðarefni þegar lausar stundir gefast. Siggi verður án efa þúsund sinnum framtakssamari en ég enda getur hann röflað og tuðað endalaust um hvað sem er, fyrir nú utan það að hann er atvinnulaus og hefur því ekkert betra að gera.

Annars var það ekki það eina sem gerðist um helgina, á föstudeginum sátu hér Jóhanna og Lotta og gerðu lokaátak í ferðahandbókinni um Gautaborg sem þær hafa verið að skrifa undanfarið. Bókin sú er byggð á efninu á Monthly.se (annar vefur sem ég smíðaði). Um kvöldið kíktum við út á lífið og enduðum í kólumbísku partíi einhversstaðar í ólöglegum næturklúbbi. Þetta hljómar reyndar skuggalegra en það er í raun.

Á laugardeginum fórum við í tveggja og fimm ára afmælisveislu. Það voru systkini Jóhönnu sem eltust um ár. Jóhanna yfirgaf mig um kvöldið í vinnuferð með Lottu svo ég þurfti að sjá um mig sjálfan. Sötraði bjór sem ég stal frá pabba Jóhönnu og viskí sem ég átti fyrir á meðan ég duddaði í vefmálum. Sunnudagurinn fór svo í hörkugöngutúr gegnum Slottsskogen og oníbæ og til baka. Á ferðalaginu nældi ég mér í Konungsbók eftir Adda Indriða. Lá svo fyrir og kláraði hana næstum því.

Eitthvað fór helgin samt skakkt oní mig því ég vaknaði í morgun hundveikur og er það enn. Lá fyrir meir og minna eftir hádegi og fram á kvöld.

Æ svei. Vonum að þetta hrökkvi af mér í nótt.

1 ummæli:

Erna Erlingsdóttir sagði...

Til hamingju með vefinn. Þetta lofar góðu.