31. jan. 2006

Komst klakklaust í vinnu. Þeir voru tveir s-einarnir samsíða á leið úr Reykjavík í þetta sinn. 5 manns í hvorum.

Ég átta mig ekki á þessi.

Það eru ekki 500 metrar í næstu kjörbúð héðan úr vinnunni. Gengið niður Hvaleyrarbrautina í tvær mínútur þar til komið er að Krónunni. Stundum hitti ég samverkafólk mitt í búðinni og það verður voða hissa. Nei, labbaðirðu!? Þú hefðir átt að biðja okkur um far. Næst verðurðu bara samferð okkur. Nja, tauta ég, ég get nú alveg gengið.

Þá horfa þau á mig eins og ég sé einhver sérvitringur, í einhverju rugli, nýaldarakukli og þess háttar, grænmetisæta og umhverfisverndarsinni. Neinei, vitleysa. Við skutlum þér næst, segja þau og snúa herðum saman. Staðráðin í að frelsa mig frá kuklinu.

Næst læt ég undan. Fæ far í gamalli Fiestu, sem lekur svo sætin eru blaut og köld. Svo láta þau móðann mása og tuða yfir hversu mikil umferðin sé nú. Sjá alla þessa bíla og svo hálftóman strætó, segja þau þar sem við sitjum föst á gatnamótum. Þetta nær engri átt. Í aftursætinu sit ég rassblautur og mæni út um gluggann á kjörbúðina þarna í seilingarfjarlægð. Ég þegi.


Ég átta mig ekki á þessi.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Auðvitað voru bara 5 manns í hvorum vagni. Hver heldurðu að sé að fara úr miðbæ Reykjavíkur til Hafnarfjarðar að morgni dags nema vonlausir sérvitringar eins og þú? Hver heldurðu að búi í miðbæ Reykjavíkur og vinni í Hafnarfirði? Nema þeir sem vinna í álverinu og þeir eru hvort sem er sóttir í rútu - og búa sennilega uppi í Breiðholti. Af hverju geturðu aldrei verið eins og annað fólk?