7. okt. 2012

Feðgar á ferð II

Við feðgar fórum á labb eins og oft áður og ég vopnaður myndavélinni. Í þetta sinn lá leiðin vestureftir, úr Síðumúla og niður í bæ. Leiðin var reyndar í flesta staði hin ágætasta til göngu. Breiðir og góðir stígar á milli húsa og yfir tún. Aðgengi fyrir kerruna yfirleitt gott, engir götukantar að þvælast fyrir okkur eða ljósastaurar á miðri gangstétt.

Þó voru nokkrir punktar sem vert er að minnast á:

Gatnamót Miklubrautar og Lönguhlíðar

Þessi gatnamót eru galin! Það er svo sem altalað. Þarna er troðið fimm akreinum á milli húsanna og svo gangstétt nánast oní götunni. Með aukinni hjólamenningu er svo orðin töluverð hjólaumferð þarna, sér í lagi meðfram Miklubrautinni. Þarna er hins vegar engin merkt hjólaleið (hún er hins vegar á Lönguhlíðinni, efni í annan pistil), svo tæknilega ætti hjólreiðafólk að hjóla á götunni. En það gerir nú enginn heilvita maður, enda lífshættulegt. Svo allir hjóla á gangstéttinni. Sú umferð fer nær öll norðanmegin, þó að mun meira pláss sé sunnanmegin. En þar er enginn almennilegur hjólastígur, heldur bílastæði og háir götukantar. Kannski helgast þetta líka af því að þessi umferð hjólandi kemur vestanúr eftir Gömlu Hringbraut, þar sem henni er beint undir Snorrabraut og meðfram Klambratúni (hugmyndin var held ég að beina henni undir Bústaðaveginn og suðurmeð Miklubraut, en þá þarf að taka á sig hressilegan krók, sem fæstir gera).

Jæja, þá er ég búinn að útskýra og afsaka umferð hjólandi þarna. Þá get ég birt hina myndina:

Þetta er sum sé tekið í vestur á gagnamótum Miklubrautar og Lönguhlíðar. Hér hef ég hjólað sjálfur, bæði til austurs og vesturs. Um daginn var ég að hjóla úr vinnunni og mætti einmitt öðrum hjólandi, akkúrat þar sem þessi á myndinni er. Þar lá við slysi. Hvorugur okkar var á miklli ferð, engu að síður þurftum við að sveigja hart hvor hjá öðrum til að rekast ekki á og þá munaði litlu að hinn aðilinn stýrði beint út á götu.

Það blasir auðvitað við að þetta horn hentar enganveginn til hjólreiða. Þrátt fyrir það er umferð hjólandi hér heilmikil allan daginn, eins og ég útskýri hér að ofan. Þetta verður að laga. Auðvitað ætti bílaumferðin að fara niður í stokk hér, sem ég held reyndar að sé áætlað. En það er langt þart til slíkar framkvæmdir hefjast og áður en það er gert þarf að laga þetta horn. Þetta er ekki bara hættulegt vegna hjólandi umferðar. Gangandi vegfarendur eru hér í hættu.

Best væri auðvitað að almennileg hjólabraut yrði útbúin, helst sunnanmegin við Miklubrautina. En í millitíðinni ætti a.m.k. að koma einhverju grindverki fyrir til að verja gangandi vegfarendur, og svo einhverri hraðahindrun til að hægja á umferð hjólandi. Þetta þarf ekki að að vera flókið eða kosta mikið.

Rauðarárstígur - Miklabrauð

Þegar áfram er haldið í vestur kemur maður fljótlega að horni Rauðarárstígs og Miklubrautar. Þar er ekki mikið pláss heldur en þar er þó smá grindverk eða múr sem aðskilur betur gangandi og akandi. En hér er sömuleiðis hætta á ferðum sökum blandaðrar umferðar hjólandi og gangandi. Hér er aðgerða þörf. Aftur væri besta lausnin að almennileg hjólaleið væri sunnanmegin og hér væri aðeins umferð gangandi. Þá þyrfti ekki að gera mikið hér til að bæta aðgengi.



Að öllu þessu sögðu er kannski rétt að fjalla um hegðun hjólreiðafólks í umferðinni og þær reglur sem um það gilda. Efni í næsta pistil!


2 ummæli:

Einingin sjálf sagði...

ég er ekki eins orðmargur, en þú sérð af þessu:
http://milligramm.blogspot.ca/2007/05/was.html
að ég þakka framtakið. Meira svona!

Króinn sagði...

Afar vont var það fyrir en þetta nýja Hringbrautarskrímsli er stundum hreinlega völundarhús fyrir gangandi og hjólandi ef það hentar manni ekki nákvæmlega að fara yfir þessar tvær göngubrýr, eða hvað þær eru margar, á löngum spotta. Breiður átóban inni í miðri borg. Þú talar um stokka fyrir bíla. Í raun er það eina sem gert var var að gera stokka fyrir hjólandi og gangandi þarna. Undirgöng og göngubrýr á einangruðum stöðum svo að ekkert stoppi fljúgandi fart einkabílsins.

Absúrd Lönguhlíðarhjólabrautin er svo auðvitað efni í heilan súrrealískan pistil. Maður á að hjóla eftir hjólabraut í sirka 500 metra en á svo líklega bara að stíga af hjólinu og reiða það, vegna þess að eftir brautina tekur ekkert við nema hraðbraut fyrir bíla. Nema þetta sér hugsað eins og sleðabrekka - maður hjólar niður Lönguhlíðina og reiðir svo hjólið upp hana aftur og fer aðra salíbunu.

Eins mætti flytja pistil um peningana sem fóru í álíka absúrd tilraun Besta flokksins og Samfó þegar þau gerðu aðra svona sleðabraut fyrir hjólafólk á Hverfisgötunni kosningasumarið 2010.

Það er svona lagað sem gerir það að verkum að ég vantreysti því, enn sem komið er, að borgaryfirvöld hafi raunverulega vit á því sem þau eru að gera í hjólreiðamálum. Er t.d. einhver sem tekur ákvarðanir þarna á borginni sem hefur í alvörunni hands-on-reynslu af því að nota hjólreiða sem samgöngumáta?

Þú ert annars óþægilega sannsögull í þessum pistlum fyrir mann sem er alveg að fara að flytja til Rvk. Ég veit ekki alveg hvort ég á að biðja þig að halda áfram eða hætta.

Jæja, haltu nú samt áfram.

s