Kannski í framhaldi af síðustu færslu:
Mér þótti áhugavert að hlusta á samtal Godds og Vals í Kastljósinu í gær. Ég er ekki alveg sammála fyrrum bekkjarbróður mínum, Vali, þegar hann segir að krúttkynslóðin svo kallaða myndi deyja út í kreppunni. Eða hvort hann hafi verið að segja það... hann virtist nú frekar vera að meina að krútt-hugtakið myndi deyja út. Hvað hann átti við með því veit ég svo sem ekki.
Það er engin þörf á að skilgreina krúttin og röfla um þessa nafngift. Það eru helst krúttin sjálf sem vilja ekki kannast við þá klassifíseríngu. Kannski það sé bara nafnið sem fari í taugarnar á þeim, eða að vera klassifíseruð. Lái þeim hver sem vill. Eða þeim... ætli ég tilheyri ekki sjálfur þessari krúttkynslóð, ásamt Elsu Maríu í Kastljósinu (sem einmitt þráspurði Val hvað hann ætti við með krútt) og fjölda fólks á okkar aldri.
Þau eru löt, hafa menn sagt um krúttin. Þau eru sökuð um samfélagslegt áhugaleysi eða heimóttaskap. Vegna þess að þau tóku ekki þátt í lífsgæðakapphlaupinu um bíl, íbúð og þvottavél og síðar flatskjá, heldur sóttu í annars konar lífsgæði eins og listir, ferðalög og náttúru. Eitthvað sem brennur ekki upp í verðbólgu eða læsist inn í gjaldþrota banka.
Krúttum hefur verið legið á hálsi að vera ópólitísk. Það er að vissu leyti rétt, mörg krútt hafa ekki tekið þátt í flokkspólitískum slagsmálum og þeirri hefðbundnu orrahríð sem þar dynur sífellt. Þykir kannski ekki nógu krúttlegt. En í staðinn hafa önnur málefni náð inn á þeirra pallborð, umhverfisvernd, verndun gamalla húsa í miðbænum, andstaða gegn neysluhyggju og klámvæðingu, svo fátt eitt sé nefnt.
Því mætti frekar segja að nú sé uppreisn krúttanna, ef satt reynist að neyslusamfélagið riði til falls. Eða hvað? Sagt hefur verið að krúttunum þyki kúl að vera hallærisleg. Nú, þegar hallærir, verða krúttin þá meinstrím? Er það það sem Valur á við er hann boðar dauða krúttsins? Þau lifi ekki af því þau hætti að vera altörnatív?
Ég mun a.m.k. ekki gráta það ef krúttin verða bara norm...
7 ummæli:
Æi Hjörtur,
Þetta er ömurleg prognósa:
Gamlar, slitnar, sniðlausar hjálpræðisbuxur og hneppt norsk peysa sem meinstrím
Lengi getur vont versnað
Mér finnst það hefði alveg mátt koma fram að lopapeysur eru eiginlega fokdýrar flíkur.
Fyrir nú utan að ég hef aldrei náð utan um þetta lopapeysutal. Þegar ég stundaði nám í Árnagarði var talað um að annar hver maður þar inni klæddist lopapeysu. Það var ekki nema í haust- og vorferðum að ég sé fólk taka þá flík fram. Svo á þetta að vera einkennisklæðnaður krútta. Aldrei sá ég nokkurn mann klæddan í lopapeysu inni á Sirkús. Nema kannski um hávetur þegar tilefni var til.
Þú ert krútt. Bara svona almennt sko.
Já, mikið djöfull fer þetta krúttbull þessa Vals og fleiri í taugarnar á mér. Annars er ég búinn að fá langa og epíska útrás fyrir það mín megin þannig að ég segi ekki meir.
Held að Kastljósið ætti nú frekar að verja tíma sínum í að kynna sér hvað 20 % tekjurýrnun þýðir í raun fyrir íslenska vísitölufjölskyldu. Hvort eitthvurt árans hugtak sé lifandi eða dautt má svo rífast um þegar það er nákvæmlega ekkert að gerast í samfélaginu. En rétt er það að nægjusama fólkið má endilega taka yfir. Sé samt ekki alveg hvernig það á að gerast í þessu andskotans samfélagi þar sem tæp 30% ætla enn að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og talað er um fyrirsjáanlega bráðnun íslenskra jökla á þeim nótum að með henni „skapist auknir möguleikar til virkjanaframkvæmda“.
og ps. annar hver kvenmaður sem sækir bókhlöðuna nú klæðist lopapeysu. samt eflaust flestar þessum dýru farmers market peysum sem eru prjónaðar í asíu en prómótaðar sem íslenskar, einna helst af forsetafrúnni. hmmm. gott að fá útrás fyrir uppsafnaða bloggþörf í kommentakerfinu þínu :-)
gúflaði "krútt" og það fyrsta sem kom upp var þú. mikið þótti annars færsla þessi naglinn á höfuðið.
Loans up to $ 500,000 and credit lines up to $ 100,000
Simple application, decisions in minutes
Found as fast as one active day if you are approved
Underwriting based on business cash flow, business and personal credit Contact us
Email: atlasloan83@gmail.com
whatsapp / hangout + 14433459339
Skrifa ummæli