Ég man umræðuna dagana og vikurnar eftir 11. september 2001. Þá horfðu margir með bjartsýni á breytta heimsmynd. Nú myndu samskipti austurs og vestur gjörbreytast og það til hins betra. Áherslan yrði á að bæta samskipti á milli trúarhópa og menningarheima. Aukin virðing og auðmýkt hins „vestræna heims“ í garð annarra heimshluta. Þá var vissulega tækifæri til slíkrar byltingar. En hún varð fljótt að engu. Þvert á móti.
Nú aftur, í kjölfar hruns fjármálakerfisins, hefur mörgum verið tíðrætt um þá breyttu tíma sem það mun hafa í för með sér. Að nýr þankagangur muni ráða sér til rúms. Nýfrjálshyggjan hefur fallið um sjálfa sig, segja menn, lok bandarísks kapítalisma! Nú taki við tímar félagslegrar samkenndar, umhverfisverndar, sjálfbærrar þróunar og efnahagslegrar naumhyggju.
Ég er ekki svo bjartsýnn. Jú, vissulega stöndum við nú aftur á tímamótum, þar sem ofangreind gildi gætu svo sannarlega orðið ofan á. En það er ekki sjálfgefið. Vitanlega verður breyting á því neyslumynstri sem verið hefur ráðandi undanfarin ár, en fyrst og fremst vegna þess að við höfum einfaldlega ekki efni á því lengur. Hvað verður þegar ástandið tekur að skána á ný? Þegar við höfum náð að byggja upp efnahag landsins á ný? Því við munum líklega ná því furðu fljótt. Á ekki sama neysluhyggjan bara eftir að skjóta rótum á ný? Sama kaupæðið, sama græðgin, nema kannski í eitthvað smækkaðri mynd?
Það er a.m.k. ekki sjálfsagt mál að annað verði ofan á. Nema að við hlúum sérstaklega að þeim gildum. Og nú er tækifærið til þess. Á næstu árum. Í kreppunni, lægðinni. Á meðan tálsýnir og draumahallir ná ekki að villa um fyrir okkur. Nú, sem aldrei fyrr, er nauðsyn að þær raddir fái að hljóma sem áður voru hjóm eitt í „góðærinu“. Röfl bindindismannsins í neyslufylleríinu. Nú þarf að skipta úr röfltóninum í uppbyggilega jafningjafræðslu.
2 ummæli:
Fyllilega sámmála, þótt ófullur sé. Sumpart eru þetta líka ábyrgðartímar þeirra sem þó hafa réttu skoðanirnar: að koma þeim á framfæri og halda þeim til streitu þótt ekki allir vilji hlusta. Það er erfitt að ráðast á drekana því drekarnir eru svo skelfilega frekir að maður ælir næstum. Æl í frekju með tvisti af bömmer er boring helvíti. En að sjálfsögðu er það rétt hjá þér að allt þetta pakk vex upp á nýtt undir öðrum nöfnum, sama hvort Hannes Smárason eigi afturgengt eður ei. Það þarf ekki nema þessi 15-20 % öfgafrekra karlmanna á aldrinum 30-50, sem ekkert hugsa um nema rassgatið á sjálfum sér, til að eyðileggja þessa þjóð eina ferðina enn. Hversu margir heldurðu líka að ætli ekki að "nýta sér kreppuna"? Manni frýs næstum hugur við að reyna að koma í veg fyrir uppgang stuttbuxnahersins eina ferðina enn en verðum við ekki að reyna? Minnist samtals okkar á bar í sumar um þessi mál og er ekki frá því nema grundvöllur þeirrar samræðu styrkist með hverjum mánuðinum sem líður. Kveðjur frá Katalóníu, Sölvi
Rétt hjá þér, Frjálsi!
Berglind
Skrifa ummæli