25. sep. 2012

Af klaufalegu skipulagi

Hún fékk heldur betur ágætis athygli, bloggfærslan mín um Amtmannsstíginn. Ég tvíeflist við þetta og held bara áfram að benda á það sem betur mætti fara í borginni. Það eru þessi litlu atriði, sem skipta máli í stóra samhenginu. Áður en ég bendi á næsta atriði má ég til með að nefna að það er margt spennandi á döfinni í skipulagsmálum borgarinnar og spennandi verkefni sem eru þegar í gangi. Þar má nefna hjólabrautina miklu sem leggja á frá Hlemmi og austur að Elliðaárósum. Ég gekk yfir hluta framkvæmdasvæðisins í Laugardalnum í dag og tók mynd:

Hér má sjá hvernig hjólastígurinn verður breikkaður þannig að umferð gangandi og hjólandi verður betur aðskilin. Það er mikilvægt öryggisatriði, eigi hjólið að verða að alvöru samgöngutæki, því hröð umferð hjólandi og hæg umferð gangandi fer enganveginn saman. Bravó fyrir þessu og ég hlakka til að nýta mér þessa leið þegar hún verður fullkláruð. Þetta er einmitt önnur af þeim leiðum sem ég get valið til og frá vinnu.
Hin leiðin er meðfram Hringbraut og Miklubraut, en þá leið þarf að stórbæta til að bæta öryggi.

Þessi mynd er tekin á Gömlu Hringbraut, við strætóstoppistöðina BSÍ. Hér birtast nokkur dæmi um það sem laga þarf víða á hjólabrautum borgarinnar, og sem einmitt er verið að taka í gegn á áðurnefndri leið frá Hlemmi og austureftir. 
Hér sést dæmi um það þegar göngustígur og hjólabraut fara saman án nokkurrar aðgreiningar. Það er, sem fyrr segir, óæskilegt og af því stafar slysahætta. En það er ekki nóg með það. Eins og sést er ljósastaur á miðri brautinni! Það er ekki aðeins afar undarlegt, heldur stórhættulegt. Reyndar er í þessu tilfelli strætóstoppistöð þarna við hliðina með óvenjustórum „brautarpalli“
og geta því hjóland
i og gangandi sneitt framhjá staurnum án stórkostlegra vandræða. En þar komum við að enn einu atriðinu, sem þarf að laga mjög víða í borginni: Brautin liggur í gegnum strætóstoppistöð. Það eitt er frekar óheppilegt, því til að stíga út úr skýlinu og inn í strætó þurfa farþegar fyrst að fara yfir hjólabrautina. Þar er slysahætta. (Þetta veit ég að er eitt af þeim atriðum sem lagað verður á áðurnefndri braut frá Hlemmi.) Þetta tilfelli við stoppistöðina BSÍ er því marföld slysagildra. Hér fara saman hjólabraut og göngustígur (einn mínus) sem liggja í gegnum strætóstoppistöð (annar mínus) með ljósastaur á miðri brautinni (þriðji mínusinn). Á pappírum kann þetta að hljóma hagkvæmt. Að nýta malbik, steypu, lýsingu og pláss eins og kostur er. En í framkvæmd er þetta galið. Flytja þarf brautina afturfyrir skýlið og sveigja framhjá staurnum, án þess að sú sveigja verði of kröpp og svo aðskilja betur umferð gangandi og hjólandi.

Laga, takk!

Bætt við kl 22:58
Eftir að hafa skoðað umræddan stíg betur komst ég að því að það er nú ekki alveg á tæru hvort hann sé skilgreindur sem hjólabraut eða ekki. Það eru a.m.k. ekki nein skilti sem gefa það til kynna. Hins vegar er leiðin sjálf, þ.e. Gamla Hringbraut, skilgreind sem hjólaleið skv. korti um hjólaleiðir í Reykjavík. Þar er hins vegar ekki alveg ljóst hvort það sé gatan sjálf eða stígurinn sem eru ætluðu ndir hjólreiðar. Umferðarlögin eru ekkert sérlega skýr hvað þetta varðar. Hjólreiðafólk á að hjóla hægramegin á götu en má hjóla á gangstétt eða gangstíg, fylgi því ekki hætta fyrir gangandi vegfarendur. Ég get ekki fundið neitt þar sem fjallar um merktar hjólabrautir. Ákvæði um hjólreiðar í umferðarlögum er reyndar efni í annan pistil. Svo virðist sem fæst hjólreiðafólk þekki umferðarreglunar hvað þetta varðar. Það fer a.m.k. ekki eftir þeim.


Amtmannsstígur

Göturnar í miðbænum eru margar hverjar gamlar og rótgrónar. Þær eru oft þröngar sem helgast af því að fólk þurfti jafnan minna pláss í gamladaga en það þarf í dag. Göturnar í Þingholtinu eru t.d. þannig. Þær voru ekki troðnar fyrir bíla í upphafi, heldur bara gangandi fólk og hesta, jafnvel annan búfénað. Það er því undarlegt að sjá hvernig þessar götur hafa með tíð og tíma þurft að laga sig að bílaumferð. Nú er málum háttað þannig og hefur reyndar verið um nokkurt skeið, að skipulag þessara gatna virðist algjörlega miðað að bílum. Eina götu geng ég oft í viku. Hinn gamla Amtmannsstíg. Götu sem er svo gömul, að heitið á henni vísar til stöðuheitis sem er ekki lengur til og fæstir vita í raun hvað stendur fyrir. En það er önnur saga. Amtmannstígur er ein af þessum fallegu götum sem hefur þurft að laga mynd sína að þörfum bílsins. Það hefur haft nokkur áhrif á aðgengi fótgangandi í götunni. Ég tók nokkrar myndir af göngu minni með son minn þar í dag. Sjón er sögu ríkari:

Hér er gengið framhjá Bernhöftstorfunni og litið upp í Þingholtið. MR er á hægri hönd. Húshornið næst á myndinni er það sem hýsir veitingastaðinn Humarhúsið. Gangstéttin fram að þessu er fín og hæfilega breið svo að t.a.m. tveir barnavagnar geta mæst. En svo vandast málið. Húsið skagar fram í gangstéttina svo eftir verður ein og hálf hellubreidd og svo kantsteinninn.


Ojæja, höldum göngunni áfram:
Hér hef ég rétt gengið yfir Skólastræti á leið minni upp holtið. Hér fær gatan enn að éta upp gangstéttarplássið. Tröppur að húsadyrum þrengja svo að gangandi umferð nær húsunum og þegar ofar dregur er búið að koma fyrir járngrindum, sem væntanlega eiga að verja gangandi vegfarendur og hús fyrir bílaumferðinni, en gera það að verkum að ekki er hægt að koma t.d. barnavagni með góðu móti eftir gangstéttinni:











Hér erum við feðgar bara komnir í heilmikil vandræði. Hér er ekkert pláss fyrir barnavagninn. Hvernig myndi t.d. blindum eða fólki í hjólastólum ganga að komast leiðar sinnar hér? Slíkir vegfarendur eiga kannski bara að vera annars staðar.
Hér kaus ég að flytja mig yfir götuna og á gangstéttina hinum megin þar sem plássið var ögn meira. En svo var ekki lengi:


Fljótlega kem ég að horni Amtmannsstígs og Þingholtsstrætis og þar virðist einfaldlega ekki ætlast til þess að fólk sé á gangi yfir höfuð. Gangstéttin hreinlega hverfur undir malbik bílanna. Hér neyðist ég að ganga með barnavagninn á götunni og ekki dugir að flytja mig yfir götuna því plássið er varla meira þeim megin þegar ofar er komið.

Nú spyr ég. Þarf gatan að vera svona? Þarf gatan að vera tvístefnugata? Er þörf á öllu þessu plássi fyrir bílaumferðina? Hún er varla mikil eða svo hröð að ekki megi þrengja að henni. Hámarkshraði í götunni er 30 km/klst. Þarf yfir höfuð að aðskilja umferð gangandi og akandi með svona skýrum hætti? Mætti ekki gera Amtmannsstíg að vistgötu þar sem öllum samgöngumátum væri jafnhátt undir höfði gert? Maður gæti svo sem gengið bara á götunni þarna, en þá er maður eiginlega samt bara fyrir. Bílstjórar eru þarna ekki beinlínis hvattir til að taka tillit til gangandi. Gatan er skilgreind sem umferðargata þar sem gangandi vegfarendur eiga að halda sig á gangstéttinni, þó það fari nú lítið fyrir henni.

Mætti ekki breyta þessu? Fara t.d. þá leið sem farin var í Grjótaþorpinu. Þar má keyra bíla um þröngar götur, án þessa að það sé á kostnað umferðar gangandi. Eiginlega bara mjög vel heppnað:

Úr Gjótaþorpi, vísað er í myndina á vefnum Virtual Tourist.






Þess má geta að ég færði inn tillögu á vefinn betrireykjavik.is um að gera Amtmannsstíg að vistgötu. Áhugasamir mega veita henni atkvæði sitt.

24. sep. 2012

Ég bíð enn eftir félagatali Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg. Ég fékk þó svar frá framkvæmdastjóra félagsins, Birni Jóni Bragasyni. Hann tjáir mér að félagar séu um eitthundrað og lofar að félagatalið fari á vefinn brátt.

Hitt og þetta

Ég fór í bíó í gær. Það telst til tíðinda. Við sáum Djúpið. Ef ég ætti að skrifa gagnrýni um Djúpið myndi ég hrósa framgangi íslenskrar kvikmyndagerðar við erfiðar aðstæður. Íslenskar kvikmyndir verðar sífellt vandaðri að mínu mati. Djúpið er góð mynd og ein af betri íslensku kvikmyndum sem ég hef séð. Bæði hvað varðar framleiðslu og leik. Kannski helst persónusköpun sem hefði mátt vera dýpri. En það er svo sem vandfarið með efni sem fjallar um raunverulegan harmleik.

...en ég ætla ekki að skrifa kvikmyndagagnrýni.