24. okt. 2010

Umburðarlyndið

(#twitter) Ég er löngu hættur að skammast mín fyrir skrifleysi hér. Enda er ég svo sem ekki að skrifa hér á blogginn fyrir lesendur aðra en mig. Grunar að hér sé enginn lesandinn (nema Siggi).

Ojæja. Ég ætla, og eiga það á hættu að fara að hljóma eins og Eiður Guðnason, enn einu sinni að röfla um mál og málfar og málnotkun.

Umburðarlyndi. Ég kannski legg annan skilning í orðið en margir. En í mínum huga merkir t.d. sögnin umbera að þola eða sætta sig við athafnir eða skoðanir annarra, þó manni sé það jafnvel þvert um geð. Þannig get ég umborið skoðanir harðra frjálshyggjumanna, þó þær séu oft á skjön við mínar eigin og ég sýni partýglöðu fólki í húsinu mínu ákveðið umburðarlyndi, þó það haldi stundum vöku fyrir mér með gleðilátum.

Þess vegna þykir mér nokkuð undarlegt þegar Íslendingar tala á jákvæðan hátt um að á Íslandi ríki mikið umburðarlyndi gagnvart samkynheigðum og að það sýni hversu víðsýn, frjálslynd og nútímaleg við séum.

Það er nú mín ósk að sem fæstir Íslendingar þurfi að umbera samkynhneigða samborgara sína.

3 ummæli:

Birna Helena sagði...

Skemmtileg grein, ég hef ekki velt þessu fyrir mér áður.

Króinn sagði...

Kverúlant.

Fjalsi sagði...

Kværúlant!