21. mar. 2013

vetur endalaus

Ekki bólar á rauðum tölum. Ekki bólar á grænum laufum. Kaldur er marsinn. Kalt er lífið.

20. mar. 2013

dubbel americano

Americano uppgötvaði ég á Vegamótum árið 2000. Þegar ég var orðinn leiður á að klára úr espresso bollanum löngu á undan lattelepjandi sessunautum mínum. Hér á Biscotti fæ ég úrvals americano. Sælt er lífið.

16. mar. 2013

Spårvagn

Ég er mikill áhugamaður um almenningssamgöngur (mikið svakalega er orðið almenningssamgöngur langt). Ég vil helst búa í borg þar sem eru sem flestar tegundir almenningsvagna; strætó, sporvagnar og lestir, ofan- sem neðanjarðar. Ekki spillir fyrir ef einnig eru ferjur eða fljótabátar. Hér í Gautaborg er allt framangreint nema neðanjarðarlestir. Það er slíkt kerfi í Stokkhólmi, Tunnelbanan. Ég var eitthvað, einu sinni, að velta því fyrir mér hvort það hefðu aldrei verið hugmyndir um neðanjarðarlest í Gautaborg. Spurði Gautaborgara sem svöruðu svo að það væri ekki hægt: allur leirinn skilurðu.

Svo var ég að vafra um internetið, eins og maður gerir stundum, og lenti á stórmerkilegum þætti í Sveriges Radio, sem fjallar um einmitt þetta, hversvegna enginn neðanjarðarlest væri hér. Fyrir ykkur sem lesið þetta blogg, skiljið sænsku og hafið áhuga á almenningssamgöngum (les. Sigurður) lími ég hér tengil á þáttinn.

Er vagnstjórinn að bora í nefið?


4. mar. 2013

Audible

Sótti mér app í símann minn. Svona hljóðbókardæmi. Stofnaði aðgang að audible.com. Eitthvað amazon.com tengt. Nú get ég sótt mér bækur og hlustað í símanum. Það er bara nokkuð ljúft. Nú þarf ég aldrei að lesa bókstaf aftur.

2. mar. 2013

Kardemumma

Fórum bara á laugardagsflipp. Flóamarkaður, róló og kaffihús. Lífið gengur stundum upp. Rauðvín í kvöld. En fyrst hlaupa.