Það er alveg merkilegt að menn (aðallega sjálfstæðismenn) skuli ennþá nenna að hlaupa stjórn Seðlabankans til varnar.
Pólitískar hreinsanir, einelti, hatur, heift segja þeir. Á málflutningi sjálfstæðismanna nú virðist nokkuð ljóst að það stóð aldrei til að stokka upp í Seðlabankanum. Sameina hann fjármálaeftirlitinu segja þeir, líklega með því að fella fjármálaeftirlitið inn sem deild í bankanum. En að láta stjórnina víkja og hætta þessu rugli með þrjá pólitískt skipaða bankastjóra kom greinilega ekki til greina. Alveg eins og það kom aldrei til greina að neinn innan sjálfstæðisflokksins myndi segja af sér eða yfir höfuð taka á sig einhverja ábyrgð.
Krafa mótmælenda síðustu vikur og mánuði var uppstokkun í kerfinu. Allstaðar, í ríkisstjórn, fjármálaeftirliti, seðlabanka, í bönkunum og á Alþingi. Það eina sem er óbreytt er Seðlabankinn (sem nú virðist ætla að breytast). Allir sýndu þessum kröfum skilning, nema sjálfstæðismenn. Það þykir mér bara svo merkilegt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli