18. mar. 2008

gengisfall

„Erfitt er að spá því hver þróun gengis verður á næstu vikum en það er auðvitað hugsanlegt að lækkunin síðustu daga gangi til baka á næstu vikum eða mánuðum. Gengið gæti einnig haldið áfram að falla.“

Hvað læra menn í hagfræði?

Íslensk veðrátta virðist annars mun áreiðanlegri en íslenska krónan.

Og launin mín í íslenskum krónum halda áfram að lækka og lækka og lækka og lækka.

14. mar. 2008

Moggablogg

Jæja - ég má til að moggablogga.

Ég rakst á þessa frétt um nafnabreytingar hjá 365 miðlum. Einu sinni vann ég sem textasmiður á auglýsingastofu. Nokkrum sinnum fékk ég það verkefni að koma að nafnabreytingunum á vörum og fyrirtækjum. (Þessar setningu skaut ég inn til að grundvalla sérþekkingu mína í eftirfarandi gagnrýni):

Stöð 2 Sport 2 - þetta er bjánaskapur

10. mar. 2008

Silfrið

Stjórnmálamenn geta ekki talað um inngöngu í ESB. Fólk talar sífellt hvert oní annað án nokkurrar vitrænnar umræðu. Svo Bingi kom með góðan punkt að láta fólkið í landinu leiðbeina stjórnmálaflokkunum í þessu máli. Annars virðast einu rökin gegn aðild vera tilfinningaleg eða þjóðernisleg. Og ótti við lýðræðishalla? Ég hef engin áhrif geta haft á stjórn Íslands hingað til. Ég held þau verði síst minni þó við yrðum hluti af öðru ríki, hvað þá bandalagi ríkja.

Af annarri inngöngu: Svo virtist Bingi nokkuð greinilega vera að undirbúa inngöngu sína í Samfylkinguna.

7. mar. 2008

Fáðu

Launin mín hafa lækkað umtalsvert frá því í sumar. Þetta er skelfilegt. Alveg hreint skelfilegt.

Helvítis íslenska króna

4. mar. 2008

Styttist í það?

Síðustu mánuði hefur skýjahula legið yfir bænum og varla sést til sólar. Vetur kallast það víst, eða svona er birtingarmynd hans á þessum slóðum. En nú undanfarna dagar hefur létt til og sólin sprottið fram á himininn. Breytingin á mannlífinu verður augljós í kjölfarið. Bros birtast á ný á vörum fólksins og brúnin léttist umtalsvert. Skyndilega fara gangstéttar aftur að standa undir nafni þegar mannskapurinn lætur sýna sig úti undir berum himni. Allt breytist á augabragði.

Vorið virðist eiginlega á næsta leiti. Má það vera? Núna strax í byrjun mars?

Gildi veðurbloggs sýnir sig þegar þessari spurningu er varpað fram: Hvernig var þetta í fyrra?

Fyrir akkúrat nákvæmlega ári reit ég þessa færslu.

Í næstu færslum þar á eftir ræði ég vart annað en vorið sem þá var að skríra úr híði sínu.

Þessi færsla var tileinkuð hinum veðurperranum: Kolbeini Sigurði Ólafssyni.

Engin ákvörðun

Þessi borgarmeirihluti virðist einkum hafa það að stefnuskrá hjá sér að taka engar ákvarðanir. Efsta málið á hinum svokallaða málefnasamningi var að taka enga ákvörðun um flugvöllinn. Búið er að ákveða að taka enga ákvörðun um hver tekur við borgarstjóraembættinu. Það er búið að tilkynna um vinningstillögu um uppbyggingu í Vatnsmýrinni. Nú veit enginn hvað á að gera við þá tillögu því enginn hefur hugmynd um hvort flugvöllurinn sé að koma eða fara. Eitthvað var Hanna Birna að rövla um að það væri hægt að notast við þessa tillögu sama hvort flugvöllurinn væri eða færi. Ég er búinn að rýna í tillöguna, og nema að hún sé að tala um að flugvélarnar lendi þarna á húsþökum, get ég ekki séð hvernig það á að vera hægt.

Málið er einfalt. Það þarf að taka ákvörðun um framtíð flugvallarins núna. Að hann fari ekki neitt og þá búa svo um hnútana að með hugsanlega aukinni flugumferð sé þessum flugvelli vært í miðborginni. Eða þá að taka einfaldlega ákvörðun um að hann verði farinn innan einhverra ára (t.d. 2016) og byrja að huga fyrir alvöru að nýju plássi fyrir hann (eða bara skutla upp flugstöð við Keflavíkurflugvöll).

3. mar. 2008

Af engu

Af og til gerist það hér á þessum bloggi að upp koma vangaveltur um ritstjórnarstefnu þessa fyrirbæris sem ég kalla 'I am Spartacus'. En það verður nú svo sem aldrei neitt úr því að breytingar verði. Enda erfitt að breyta engu. Eða tilgangslaust máski frekar.

Hvað um það. Lítið hefur verið um málfræðiblogg eða pólitíkst rövl. Ég mun nú reyna að auka hlut þess hér á næstu dögum/vikum/mánuðum. En ekki akkúrat núna.

Fyrir réttum fjórum árum reit ég á þennan blogg:

Aleinn í margmenninu
ferðast ég afturábak áfram
fram og til baka
með strætisvagninum


Þá var maður nú skáldlegur. Fyrir akkúrat þremur árum reit ég þetta:

ég einmitt var að kvarta undan snjóleysinu við leiðbeinandann minn í gær, hollenskan, og sagði að snjórinn hér væri nú ekkert spes fyrst hann gæti ekki fest. Hann horfði á mig skilningslausum augum og hélt áfram að tala um mikilvægi tónlistarmyndbanda fyrir kúltúral sittisensjipp.

Fyrir tveimur árum var minna um að vera í lífi manns:

Föstudagskvikmyndagetaun Frjettabrjefs Frjálsa

Spurt er um kvikmynd

1. vísbending: Kvikmyndin segir frá skeiði í lífi ungs manns


Örlítið meira fjör fyrir ári síðan:

það er svo sem ekki mikið mál að vinna um helgar. ég stíg upp úr rúminu og sest við skrifborðið, jafnvel á nærklæðunum einum, með úfið hár og óþrifinn. í dag verður unnið og unnið þar til kvöldið kemur.

internetið kom en þá fór rafmagnið...

rafmagnið kom aftur... og internetið fór ekki

við skulum vona að internetið og rafmagnið uni sér saman hér á Slottsskogsgatan 79b



Svona eru dagar mínir.