3. okt. 2006

Af hetjum

Stundum á lífsleiðinni verða viðburðir sem líklega verða manni ógleymanlegir. Í gær held ég að einn slíkur hafi orðið í mínu lífu þegar ég sá myndina Leiðin til Guantanamo og hlustaði svo að því loknu á þá félaga Asif Iqbal og Rhuhel Ahmed sem myndin fjallar um. Þeir máttu dúsa í fangabúðunum á Guantanamo í um tvö ár og sæta þar pyndingum og meðferð sem flestu sómasamlegu fólki myndi ekki einu detta í huga að beita dýrum.

Það er ekki oft sem maður hittir sannar hetjur en í gær hitti ég tvær slíkar. Þegar það gerist er eins og líf manns eða lífsviðhorfið taki örlitlum breytingum. Ekki vegna þess að maður vissi ekki fyrir hvaða hrottafengnu glæpi og ólýsanlegu mannréttindabrot bandaríkjamenn hafa stundað á Guantanamo og víðar um heim undanfarin ár. Það er þegar maður horfir í augun á fólki sem hefur mátt upplifa þessar hörmungar á eigin skinni og eigin sál að eitthvað vaknar innra með manni sem er svo ólýsanlegt. Þegar ég las úr augnaráði þeirra svo mikinn styrk og svo mikla von áttar maður sig kannski á því hversu lítilfjörleg manns eigin vandamál eru en um leið eflist maður hið innra og vaknar með manni sú trú að kannski, einhvern daginn, munum við sigra þessa yfirgengilegu grimmd. Ekki með ofbeldi og stríði heldur innri styrk og þeirri trú að við getum sigrað að lokum. Þegar við sjáum menn sem ekki láta bugast heldur standa uppi sem sannir sigurvegarar.

Í kvöld munu þeir Iqbal og Ahmed lýsa reynslu sinni og taka þátt í pallborðsumræðum ásamt á vegum kvikmyndahátíðarinnar og Amnesty International í Iðnó klukkan 18:00.

Engin ummæli: