28. des. 2003

Gleðileg jól.


Mig verkjar í andlitið. Síðustu þrjá klukkutíma er ég búinn að þurfa að halda uppi gervibrosi og smáspjalli. Eitt versta matarboð sem ég hef farið í á ævinni. Elísabet hin brasilíska bauð til veislu í dag. Hún bauð þremur kennurum í linguistics, sem er svo sem allt í lagi en þetta er þrír leiðinlegustu kennararnir í deildinni. Og einn þeirra mætti með tvær unglingsdætur sínar sem eru haldnar unglingaveiki á hæsta stigi. Maðurinn hennar Elísabetar er hér í heimsókn yfir hátíðirnar. Hann er hreint út sagt hrútleiðinlegur, og nema hvað þá lenti ég við hliðina á honum við matarborðið. Hann er einn af þessum mönnum sem finnur sig knúinn til að halda uppi samræðum og ekki skiptir máli hvert umræðuefnið er. Hann sagði mér í smáatriðum frá við hvað hann er að vinna, gjörsamlega óspurður, enda myndi mér aldrei detta í hug að spyrja fólk sem mér líkar ekki við hvað það sé að vinna. En sem betur fer ég þeim hæfileika búinn að geta brosað, kinkað kolli og jafnvel svarað, án þess að hafa hugmynd um hvert umræðuefnið er. Ég hef til dæmis ekki hugmynd um við hvað hann starfar, nema jú, ég veit að það krefst mikillar þolinmæði, eins og hann þreyttist ekki á að segja. Einnig voru þarna Anna hin rússneska og systir hennar og einhver breskur hermaður sem ég veit ekki hvar var grafinn upp. Og ekki má gleyma ofvirka málvísindanemanum sem ég veit ekki hvað heitir er hefur þessa einkennilegu þörf fyrir að segja brandara. Ókei. Af tuttugu bröndurum var þessi fyndastur: Hvað er líkt með tómati og kartöflu. Bæði rauð nema kartaflan.

Þetta hefði svo sem getað verið þolanlegt ef maturinn hefði verið góður. Onei. Í fyrsta lagi leit hann út ein og ósoðin blóðmör, lyktaði eins og elliheimili og bragðaðist, tja, ég veit svo sem ekki hvernig skítur bragðast...

Já, þrír klukkutíma í helvíti. Kvöldið ónýtt, óbragð í munni og illt í maga.

Gleðileg jól

Engin ummæli: