Jó! Sunnudagur og mér líður vel. Sit hér við eldhúsborðið og drekk kaffið mitt og horfi á restarnar af morgunmatnum sem ég var að snæða. Fyrir utan gluggan syngja fuglar í trjám en fátt annað raskar morgunkyrrðinni á Gæsavöllum. Á slíkum degi kemst maður ekki hjá því að hugsa af hverju gildishlaðin nafnorð sem lýsa ákveðnum skapgerðarbrestum eins og skræfa, gunga, rola og bleyða, eru kvenkyns á meðan önnur sambærileg eins og slóði, slugsi, sóði og ruddi eru karlkyns. Er það vegna þess að konur eru meiri skræfur en karlar sem eru meiri ruddar? Líklega. En svo þegar karlmaður er kallaður skræfa er í raun verið að líkja honum við konu. Þ.e. honum eru gefnir ákveðnir kvenlegir eiginleikar sem um leið draga úr karlmennsku hans. Með því að kalla karl gildishlöðnu orði í kvenkyni eru áhrif orðæðunnar mögnuð. Það á líka við þegar kona er nefnd ruddi. Þar eru henni gefnir ákveðnir karllægir eiginleikar sem um leið eru neikvæðir. Og finnst okkur ekki að kona sem er kölluð ruddi sé mun meiri ruddi en karlruddi? Tja, slík verða áhrifin í mínum huga. Merkilegt fyrirbæri svipað þessu er þegar karlamaður er kallaður kerling. Með slíku er ekki beinlínis verið að segja að hann sé líkur gamalli konu heldur er merkingin svipuð orðunum skræfa, rola, gunga og bleyða. Merkingin er önnur þegar kona er kölluð kerling, þá er frekar átt við að hún hegði sér eða líti út eins og gömul (og/eða leiðinleg) kona.
Undantekning frá þessu er orðið hetja. Sem vissulega er kvenkyns er er líklega mun meira notað um karlmenn og það á afar jákvæðan hátt. Ef aftur á móti kona er kölluð hetja er jafnan vísað til hennar sem kvenhetju. Með því er orðið hetja eignað karlmönnum og markað karlkyni.
Já, málið er merkilegt!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli