Það er fallegur sunnudagur hér. Hlýtt og sól. Það heltist hér yfir hagl og rok í um tvær mínútur. "Íslenskt veður!" hrópaði Jóhanna forviða.
Ég fór seint á fætur enda engin ástæða til að vera að rjúka framúr þegar maður hefur svo sem ekkert betra að gera en að liggja í rúminu og hugsa. Ég kom hingað ekki til að dansa, heldur til að hugsa!
En letikastinu lauk og ég hoppaði á fætur og fór að flokka. Flokka rusl. Hér í Svíþjóð er manni nefnilega gert auðvelt fyrir að flokka rusl. Þannig eru t.a.m. dagblaðagámar við hliðina á sorptunnunum hér heima. Einnig er þar sérstök tunna fyrir lífrænt sorp. Svo er hér úti á horni móttökustöð fyrir endurvinnanlegt efni, s.s. gler, plast, pappa og dagblöð, einnig er þar tekið við rafhlöðum og garðaúrgangi. Þessar stöðvar eru reyndar tvær hér steinsnar, ein í vestur í um þriggja mínútna labbi, hin í austur í um tveggja mínútna labbi.
Svo gerðist hið stórmerka í gær. Ég keypti mér jogg-skó. Nú verður joggað sem aldrei fyrr, enda hef ég aldrei fyrr joggað. En með þessa jogg-paradís í hverfinu, Slottsskogen er nú ekki annað hægt. Svo nú verður farið út að hlaupa í hádeginu. Ekki að hlaupa á eftir strætó eða kvenfólki heldur bara að hlaupa eitthvað út í bláinn til þess að hlaupa. Það er kannski kjánalegt en eitthvað þarf ég að gera til að sporna við að folkölið setjist utan á mig og skrokkinn minn allan.
Svo mótmælti ég í gær.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli