Það er nokkuð betra í mér skapið í dag. Hvers vegna, veit ég ekki. Enn er netlaust heimilið þó vissulega sé þar komið mótald eitt. Ég vorkenni því greyinu því það er eflaust allt af vilja gert. Það hamast og hamast en nær ekki að miðla okkur neinu neti, hvorki þráðlausu né þræddu.
Kannski er skapið betra því ég hellti úr skálum minnar reiði yfir sænskan Åkon einhvern, eða hvað hann nú heitir. Hann vinnur hjá Bredbandsbolaget við að hlusta á reitt fólk. Svo ég hrindi í hann á níundatímanum í morgun og spurði hann kurteislega hvort ég mætti spjalla örlítið við hann á ensku (því ekki get ég fyrir mitt litla líf tjáð mig um netvandræðin á sænsku, og varla heldur skammað nokkrar sál, a.m.k. ekki með neinum árangri, því mér skilst að sænskan mín sé í besta falli krúttleg og skondin). Åkon, eða hvað hét hann, sagði rogginn að auðvitað gæti ég talað ensku við hann, hann væri sérlega fær á enskri tungu og hún væri honum í raun sem annað móðurmál.
Svo ég þyrlaði upp á hann skömmum og leiðindum og einni og einni hótun og lauk svo máli mínu á því að segja: "Or I simply have to take my business elsewhere!"
Åkon sagðist ekkert geta gert en bað mig vinsamlegast að endurskoða hug minn því hann vonaði svo sannarlega að ég héldi viðskiptum mínum áfram við fyrirtækið. Ég hummaði eitthvað og hnussaði og ætlaði svo að biðja um að fá að tala við yfirmann hans eða einhvern sem gæti hjálpað mér þegar sambandið slitnaði og góðleg konurödd tjáði mér á sænsku að því miður væri ekki nægileg inneign á kortin mínu til að halda samtalinu áfram.
2 ummæli:
Af þessu má draga þann lærdóm að aldrei skuli stofna til rifrildis nema með næga frelsisinneign.
Ætlaru ekki bara að taka flug heim í afmælið mitt? Það væri óskaplega gaman... Ég mun væntanlega brjóta odd af oflæti mínu, sigrast á félagsfælninni og fara á barinn á fyllerí. Ég vil hafa þig hjá mér þá...
Skrifa ummæli