18. ágú. 2008

Starfhæfur meirihluti

Í kjölfar þessara pælinga sem laust niður í huga okkar feðga um svipað leyti:

Hvergi í sveitastjórnarlögum er talað um að virkur meirihluti þurfi að fara með stjórn borgarinnar. Það kemur heldur ekki fram í samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar. Sú þörf, sem ég hef heyrt endurtekið talað um, að mynda starfhæfan meirihluta, virðist því alls engin skylda borgarfulltrúa heldur eingöngu hefð.

Það er eingöngu talað um að oddviti sveitastjórnar (forseti borgarstjórnar) þurfi að fá meiri hluta atkvæða í borgarstjórn. Hins vegar fái enginn einn meiri hluta atkvæða er kosið um þá tvo sem flest fengu atkvæðin. Fái hvorugur þeirra meiri hluta atkvæða nær sá kjöri sem flest hlýtur atkvæðin. Meirihlutinn er því óþarfur.

Sú leið að tveir eða fleiri flokkar komi sér saman um að myndar meirihluta er því aðeins til að tryggja að koma sínum fulltrúum í embætti og einhverjum sinna málefna á dagskrá. Vel má vera að þetta sé þægilegasta leiðin og tryggi ákveðinn stöðugleika innan borgarstjórnar. En eins og mál voru komin í borgarstjórn Reykjavíkur má spyrja sig hvort ekki hefði bara verið rétt að sleppa meirihlutamyndun og að hver borgarfulltrúi væri, eins og lög gera ráð fyrir, ekki bundinn neinu nema eigin sannfæringu. Auðvitað er eðlilegt að borgarfulltrúar starfi samkæmt stefnu þess flokks sem þeir eru fulltrúar fyrir enda líklegt að sannfæring einstaka borgarfulltrúa sé svipuð og stefna flokksins.

Það hefði verið spennandi að sjá hvernig slíkt fyrirkomulag hefði reynst og ábyggilega gengið betur ofan í borgarbúa sem langþreyttir eru á þessu pólitíska drullumalli sem hrært hefur verið saman undanfarna mánuðina.

En þessu liði er of umhugað um völd til að láta á það reyna að ná kjöri í embætti með óbundnum kosningum innan borgarstjórnar. Það er náttúrlega bara naív að láta sig dreyma um svona hluti.

4 ummæli:

Króinn sagði...

Held að þetta myndi nú bara auka enn á glundroðann. Held, þrátt fyrir allt, að það sé nú svolítið mikilvægt að það sé einhver skýr heildarstefna í gangi (ekki að það hafi reyndar verið á þessu kjörtímabili) til að til dæmis embættismennirnir í borginni viti hvað er í gangi.

Yrði dálítið erfitt að stjórna svona stóru batteríi eins og borginni ef það þyrfti alltaf að bíða í vissu og óvissu eftir næstu atkvæðagreiðslu í Ráðhúsinu hvaða stefnu á að taka í stórum málum. Dæmin sem menn hafa verið að nefna í fjölmiðlum síðustu daga í líkingu við það sem þú talar um eiga aðallega við mjög smá sveitarfélög. Þar á þetta örugglega ágætlega við en þetta er mjög mörgum vandkvæðum bundið í stærri einingum eins og Rvk.

Skil vel svona pælingar en held að þær gangi mjög illa upp í praxís.

Sigurður Ólafsson, ofmenntaður stjórnmálafræðingur og besservisser, hefur mælt.

Fjalsi sagði...

Jújú - þetta er satt. Enda útópískir draumar eins og ég nefni þarna í lokin.

Ég var svona að velta fyrir mér hvort þetta væri skásta lausnin miðað við þau óefni sem komið var í að ekki væri hægt að mynda neinn "starfhæfan" meirihluta. Maður spyr sig hversu starfshæfur nýi meirihlutinn sé í raun og veru. Þá hefði allt eins mátt reyna þess leið sem í raun er miðað við samkvæmt lögum.

En ég er sammála því að með meirihlutamyndun er tryggð (eða á að vera tryggð) ákveðin festa sem nauðsynleg er í jafnstóru apparati.

Króinn sagði...

Jamm, svona svipuð útópía og þegar að Dagur og félagar segjast vilja losna við klækjastjórnmálin úr borginni. Hljómar voða vel en ,,as if!" segi ég nú bara. Þetta var meðal annars mælt sama dag og einhverjir vinstri menn voru að plotta það hvernig Ólafur F. gæti kannski fengist til þess að hætta til þess að koma nýjum Tjarnarkvartetti á. En það mátti ekki kalla það klæki.

Pólitík er valdatafl og baktjaldamakk í eðli sínu, hvort sem okkur líkar það betur eða verr og hversu fólk er viljugt til að viðurkenna það eða ekki.

Nafnlaus sagði...

Það er eflaust rétt hjá Sigga að þetta mundi ganga illa í raun í þetta stóru sveitarfélagi. Hins vegar er vert að minna á það, að sveitarstjórnamálin eru ekki sett upp á sama hátt og landstjórnarmálin, þar sem gert er ráð fyrir að meirihluti myndi sérstaka ríkisstjórn sem minnihlutinn á ekki aðild að (og svokölluð þjóðstjórn er alger undantekning). Formlega séð er stjórnun sveitarfélagsins sameiginlegt verkefni allrar sveitarstjórnarinnar og sveitarstjórnir ættu auðvitað að leitast við að starfa í samræmi við það, þó svo að einhverjir flokkar myndi meirihluta af hagkvæmnisástæðum. Á sama hátt mætti ríkisstjórnin oft taka meira tillit til stjórnarandstöðunnar. Um þetta skrifaði ég reyndar stutta grein eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar:
http://notendur.centrum.is/~einarol/lydraedi.html