Þvílíkur er spenningurinn fyrir Veiðiferð Kolbeins að mig er farið að dreyma veiðiferðir.
Já, við Kolbeinar höfum bókað okkur stugo í smálöndunum og verður haldið í hann eftir um, tja 16 daga! Hingað til hef ég aðeins fengist við silungs- og laxveiði. En í vatninu sem við ætlum að veiða í er enginn lax eða silungur heldur gedda og abborri og áll og eitthvað sem kann ekki að nefna. Mér skilst að besta leiðin við að veiða aborra sé að dýfa öngli í vatn. Besta leiðin við að veiða geddu ku svo vera sú að festa aborra á öngul og dýfa í vatn.
Sjáum til. Um helgina ætla ég að labba út á bensínstöð og fjárfesta í hræódýrri veiðistöng.
6 ummæli:
Einu sinni sagði Megas að þegar að HANN hlakkaði rosalega til einhvers þá hlakkaði HONUM til. Nú hlakkar MÉR til Kolbeinsferðar.
Annars snúast martraðir mínar um það að abborri og gedda séu hugsanlega svo ófrýnilegir fiskar að maður klippi á þráðinn í stað þess að draga inn af tómri hræðslu við skrímsli. Hvað veit maður?
Í kjölfar færslunnar hér áðan þá fór ég að lesa mér til um gedduveiði. Þetta lítur svakalega út því ekki duga nein venjuleg meðul eins og við Kolbeinar eigum að venjast. Nei, við þurfum víst að notast við vír í staðinn fyrir girni, naglbíta og sérstaklega hannaða öngla og króka. Þá er gott að taka með sér þykka vinnuhanska því þeir eiga víst til að bíta af mönnum fingur! Þetta verður rosaleg!!!
Varið þið ykkur á álunum, piltar, það eru til hroðalega sögur af þeim.
Nýjasta dæmið sem ég hef um hversu viðsjárverðir álar eru er frá 1. mars þessa árs:
"Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York eru í algjörri niðurníðslu; rottur, mýs, maðkar af ýmsu tagi og jafnvel álar úr Austuránni hafa hreiðrað um sig í grunni aðalbygginganna þriggja.
Þaðan fara rotturnar í ránsferðir uppá hæðirnar fyrir ofan. Daily Telegraph segir frá þessu í dag. Höfuðstöðvarnar voru vígðar 1952 og verða endurbætur hafnar næsta ár."
Þannig hafa álar sameinast rottum og öðrum meindýrum við að grafa undan Sameinuðu þjóðunum. Varið ykkur, piltar!
Sjá:
http://www.ruv.is/heim/frettir/stort/frett/store64/item145702/
Með þessu áframhaldi virðist allt stefna í tvísýnan slag um það hvort að við veiðum fiskana eða fiskarnir fanga okkur. Útlönd eru stórhættuleg!
Ég fjárfesti í startkitti um daginn, stöng, hjól, fullt af spúnum, gervimaðkar og annað veiðidrasl, ásamt tösku sem rúmar um 12 bjóra. Allt klabbið á 300 danskar. Því miður fylgdi hvorki rotari né fallbyssa með í kaupum, en mér skilst að geddur falli einungis fyrir fallbyssum.
Þetta verður stuð, jafnvel þótt við séum Svíþjóðarmegin.
Skrifa ummæli