Við Íslendingar höldum oft að einhverjir hlutir séu séríslenskir. Margir halda því t.d. fram að kokkteilsósan sé íslensk uppfinning (ef hægt er að kalla það uppfinningu að blanda saman tómatsósu og mæjónesi). Það er hins vegar della. Í Hollandi er t.d. hægt að fá kokkteilsósu, hún ku hafa borist til Hollands frá Belgíu og í Belgíu er hún talin koma frá Frakklandi. Kokkteilsósan sem notuð er á franskar kartöflur ku vera afbrigði af sósunni í rækjukokkteil. Hence the name! Ég ætla að eigna frökkum kokkteilsósuna, enda eru þeir snillingar í að búa til viðbjóðsmat. En, jú þess vegna finnst mér Icelandair auglýsingin hláleg þar sem kona ein stendur á Damtorgi í Amsterdam og biður um Cocktailsauce. Í auglýsingunni er sum sé látið liggja að því að sósan sé íslensk uppfinning og að beiðni konunnar sé jafnstórkostleg og að einhver útlendingur syngi Draum um Nínu á húsþaki einhverri stórborginni. Ég hef t.d. verið á veitingastað steinsnar frá Damtorgi þar sem einhver bað um Coctailsauce og fékk út á frönskurnar sínar þennan bleika viðbjóð.
En: ég ætlaði ekki að tala um kokkteilsósur hér. Heldur annað sem margir telja eitthvað sér íslenskt. Að fara hamförum yfir velgengi strákanna okkar á erlendri grund. En svo hefur maður komist að því að það er bara alls ekkert sér íslenskt. Síður en svo. Hér í Svíþjóð eru menn t.d. alveg að missa sig yfir því að Henrik Larsson hafi skorað mark fyrir ManUtd. Og þegar hinn sænsk-norski Christer Fuglesang varð fyrsti Svíinn út í geim héldu menn veislur út um gjörvalt Svíaríki. Hmmmm - kannski eru það Svíar sem eru bara jafn miklir smáborgarar og íslendingar.
2 ummæli:
Gleðilegt ár Hjörtur minn! Vonandi hafið þið það gott og ég bið að heilsa Johönnu. Kv...
Það er margt líkt með þjóðarsálum Svía og Íslendinga. Til dæmis tala svíar mjög oft um að bestu tannlæknarnir séu í Svíþjóð, bestu hárgreiðslukonurnar o.s.frv. nákvæmlega einsog Íslendingar.
Hefurðu horft á Världens modernaste land á SVT? Þar kemur svipað í ljós. Fredrik Lindström hélt því fram í fyrsta þættinum að Svíar væru svo sérstaklega fljótir að tileinka sér nýjungar, t.d. Kaffi Latte og Cappucino sem allir drekka núna. Hann áttar sig greinilega ekki á að það eru allir allsstaðar að þamba þetta. Maður heyrir oft svona fullyrðingar á Íslandi.
Annars eru þættirnir hans Fredriks skemmtilegir.
Skrifa ummæli