Byrjum á Sigurðarmálum: Snjórinn kom aftur. Öllu heldur kom meiri snjór. Það snjóaði sum sé aftur. Hann virðist ætla að staldra lengur við í þetta sinn því spáð er kulda og stillu næstu daga. Það er sem sagt það sem margir kalla fallegt veður, stillt, kalt og jörðin snævi þakin. Þakin snjó.
Kennsla byrjaði greinilega aftur hér í háskólanum í gær. Nú þarf ég að bíða í röð eftir að fá kaffi og kliður ríkir í loftinu. Spennt andlit nemenda sitja á höfðum þeirra og spjalla um daginn, veginn og sitthvað fleira. Ég bíð spenntur eftir að helvítis netfyrirtækið tengið heimili mitt við internetið.
Undanfarna daga hefur legið yfir mér þreyta og þróttleysi með tilheyrandi andleysi. Eru ekki andinn og þrótturinn samtvinnuð element í manns búk? Hvað veit ég. Veit þó að ég skemmti mér við lestur Eddukvæða í gær. Ég ætla skoða þátt Siggurðar Fáfnisbana í þeim bókmenntum. Ég bölvaði í gær að hafa skilið Völsunga sögu eftir í hillunni á Íslandi. Þá rifjaðist uppfyrir mér internetið. Völsunga saga er þar ásamt systrum sínum mörgum. Þar er ok Heimskringla. Máski ég lesi um Gauta í Heimskringlu, svona fyrst ég er í borginni þeirra.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli