Hjörtur heiti ég. Þið vitið það kannski flest. Frjálsi er kannske bara svona alias hjá mér. Hjössi þá viðurnefni, yfirleitt notað með auknefninu frjálsi, eða skyldi það vera ákvæðisheiti? Jæja, hvað um það. Ég reit um þetta ritgerð fræðiliga fyrir réttum tveimur árum. Reit um þá ritgerð á þetta blogg fyrir tveimur árum.
En ég heiti sum sé Hjörtur og hlusta nú á Death Cab for Cutie sem mér finnst alveg hreint hið fínasta band. Það er Rás2 sem veitir mér þá fróun í þetta sinni.
Annars var um helgina málþing sem ég missti af. Fjallaði það um stöðu íslenskrar túngu. Það fór alveg framhjá mér. Sem er verra því þar hefði ég viljað vera þátttakandi. En hann Páll Valsson tók þar til máls og sagði að að óbreyttu yrði íslensk túnga ekki lengur töluð eftir um 100 ár.
Það held ég að sé satt. Ef íslensk túnga breytist ekkert næstu 100 árin verður líklega afar erfitt að tjá sig á henni. Fái málið hins vegar að taka þeim breytingum sem því eru nauðsynlegar um leið og við hlúum að því með virkri málnotkun og íslenskukennslu og rannsóknum til að efla skilning okkar á því, þá mun það gagnast okkur nokkuð lengur en næstu 100 árin. Eitt sinn notuðu menn grjót til að opna hnetuskurn til að hafa eitthvað í sig. Í dag notum við dósaopnara til að opna áldósir til að nærast.
Túngumálið er tæki sem við notum til að takast á við vandamál samtímans.
Ég fæ ekki séð að íslenskunni sé ógnað á meðan agnarsmá börn finna upp nýjar leiðir til að nota hana í nútímasamskiptum eins og t.d. sms-skilaboðum. Það er einmitt það sem íslenskunni er svo nauðsynlegt til að hún fái dafnað í framtíðinni. Að málhafar hennar geti notað hana og beitt á ný vandamál.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli