6. jan. 2006

Mér brá nokkuð þegar ég steig um borð í Flugleiðavél í gærkvöldi (já ég er einn af þeim sem kalla Icelandair enn Flugleiðir) en á miðanum mínum stóð skýrum stöfum Iceland Express. Það kom svo á daginn að tvær Iceland Express-flugfreyjur vorum um borð svo offissíal mátti kalla þetta Iceland Express-flug.

Í Flugleiðavélinni las ég Moggann sem ég keypti fyrir 200 krónur. Ég las líka International Herald Tribune sem ég fékk ókeypis á flugstöðinni. Mogginn var sextíuogeitthvaðsíður, Herald Tribune var sextán síður. Ég las Moggann á tíu mínútum. Ég las Herald Tribune í klukkutíma þegar ég hætti og lagði mig.

Í Mogganum var þó eitt sem vakti athygli mína. Íslendingar sprengdu meira en hálfan milljarð um áramótin.

Fyrir þennan pening er t.d. hægt að:

Útvega 200.000 ábreiður til að vernda ungabörn frá vetrarkuldum.
Útvega næringarríkan mat til að fæða 145.000 börn í 30 daga.
Kaupa um 1,9 milljónir penisilínskammta.
Bólusetja 10 milljónir manna gegn mislingum.
Bólusetja 500.000 börn gegn þeim 6 helstu sjúkdómum sem ógna lífi þeirra í dag.
Útvega 750.000 kassa af próteinríku kexi sem nota má í neyðarhjálp.

Fyrir hálfan milljarð má bjarga svo ótalmörgum mannslífum. En við kjósum að sprengja velmegun okkar í loft upp og mála himininn í tvær klukkustundir.

Húrra fyrir okkur!

Engin ummæli: