6. feb. 2008

Nafnavitleysan

Fjölmiðlafólk og annað fólk er jafnan harðort í garð mannanafnanefndar og býsnast yfir úrskurðum hennar. Starfsfólk nefndarinnar liggur jafnan undir ámælum ásamt háði og spotti. Máski mér sárni það vegna þess að um kollega mína er að ræða. En það er þó ekki eingöngu þess vegna sem umræðan fer í taugarnar á mér. Eins og svo oft áður í umræðunni á Íslandi er verið að deila um keisarans skegg. Málið snýst alls ekki um nefndina sem slíka heldur lögin sem hún starfar eftir. Það er alls ekki svo að um geðþóttaákvarðanir sé að ræða hjá nefndinni og að algjört ósamræmi sé í úrskurðum hennar. Ég skil svo sem að fólki kunni að þykja svo þegar það sér nöfnin Guja og Vár samþykkt en ekki Curver. En hafi maður menntað sig eitthvað í íslenskri tungu og málfræði liggur í augum uppi ástæðan fyrir slíkum úrskurði. Ekki myndi spilla fyrir ef fólk myndi kynna sér lögin um mannanöfn. Sé fólk fúlt yfir úrskurðum mannanafnanefnda ætti það frekar að gagnrýna lögin en ekki nefndina. Ég reit einu sinni um þetta grein.

Sannast hið fornkveðna: Fólk er fífl.

3 ummæli:

Króinn sagði...

Það á að leggja svona nafnalögreglu niður. Rökin fyrir svona lagasetningu eru ekki nógu sterk til að þetta sé verjandi. Fullorðið fólk verður að standa og falla með því sem það nefnir börnin sín, ekki einhver ríkisnefnd. Ég hugsa til dæmis til íslenskra ríkisborgara af erlendum uppruna, þeir eiga ekki að þurfa að láta það yfir sig ganga að vera neyddir til þess að skýra barnið sitt íslensku nafni, jafnvel þó það sé bara millinafn. Ekki myndum við alla vega láta slíkt yfir okkur ganga ef við gerðumst erlendir ríkisborgarar en vildum nefna barnið okkar íslensku nafni.
Hins vegar tek ég fram að mannanafnanefnd má starfa fyrir mér og að sjálfsögðu er íslensk málnefnd allra góðra gjalda verð. En hún á ekki að fá að setja reglur um hvað maður má heita og hvað ekki.

Króinn sagði...

...svo ég gerist aðeins nákvæmari í orðalagi: það á að breyta þeim reglum sem mannanafnanefnd starfar eftir þannig að fólk fái að nefna börnin sína nákvæmlega það sem það vill. Mannanafnanefnd má hins vegar alveg starfa áfram en hafa þá einungis leiðbeinandi hlutverk.

Og svo ætti Þjóðskrá auðvitað í leiðinni að fá sér nýtt tölvuforrit þannig að foreldrar þurfi ekki að takmarka sig við 32 stafi í nafngiftum, bara af því að excel-skrárnar hjá Þjóðskrá taka ekki við neinu lengra.

Fjalsi sagði...

Vitanlega á að breyta lögunum. T.d. hefur mannanafnanefnd sjálf bent á að það vanti greinarmun á nöfnum sem falla ekki að íslensku hljóð- og beygingarkerfi annars vegar og svo ónefnum hins vegar (eins og Kúkur, Maur, Æla eða Gæs). Þurfum við á slíku ákvæði að halda sem bannar ónefni, í stað þá núverandi reglna um rithátt og beygingu? Ég er a.m.k. á því að nefndin verði ekki lögð niður nema að lögunum verði breytt algjörlega.