Ég veit ekki hvort segja megi að hurð hafi skollið nærri hælum í gær. En í það minnsta var útlitið svart um stund.
Ég vaknaði með verk fyrir brjóstinu, en hugsaði svo sem ekkert meira um það. Harkaði af mér, beit á jaxlinn og hrækti eins og karlmenni. Ég gekk til vinnu en þegar þangað var komið var verkurinn orðinn sár og ég farinn að finna sterkan púls upp í háls. Þegar ég svo fékk aðsvif fannst mér tímabært að hringja í lækni. Ég sagði honum eins og var. Viðbrögðin létu ekki standa á sér:
?Hringdu í sjúkrabíl núna, ég hef samband við hjartadeildina á Landspítala þegar í stað.?
Ég hringdi í sjúkrabílinn og á meðan ég beið rann ævi mín fyrir sjónum mér. Ég hugsaði um góð sumur í Svarfaðardal, fyrsta skóladaginn fyrir 24 árum, fyrsta kossinn, fyrsta fylleríið, árin tvö í Amsterdam, o.s.frv. Jú, ævin hafði svo sem verið góð hingað til, no regrets, svo ég var ekkert allt of stressaður þegar ég steig loksins upp í sjúkrabílinn. Þar var ég mældur í bak og fyrir og svo brunað með mig á slysó. Það var svo sem huggulegt þarna í sjúkrabílnum, þó að ég óski þess að þurfa aldrei aftur að þiggja far með slíkri bifreið.
Á sjúkrahúsinu voru gerðar á mér allar hugsanlegar mælingar; hjartalínurit og blóðprufa, röntgenmyndir teknar, hitinn mældur og eitthvað annað sem ég kann ekki að nefna. Hjartað úrskurðað í góðum gír og lungum líka: Ég er líklega ekki að drepast. Sendur heim með verkjalyf í poka.
Er það þá svona sem fertugsaldurinn byrjar?
2 ummæli:
Djöfullinn maður! Ég á sem sagt tæplega tvö góð á eftir samkvæmt þessu?
ja svei!
Skrifa ummæli