Um daginn var ég að hlusta á útvarpið. Ég geri það stundum. Einhver sérfræðingur, eða að minnsta kosti áhugamaður, var að tala um hvernig við gætum dregið úr bensínnotkun í kjölfar verðhækkana. Kom maðurinn með ýmsar tillögur, svo sem að keyra með jöfnum og hægum hraða, hafa bílinn vel stilltan, forðast að fylla bílinn af óþarfa drasli sem þyngir hann sem aftur veldur meiri bensínnotkun ásamt fjölda góðra ráða...
En aldrei var stungið upp á því að nota bílinn einfaldlega minna, eða ekkert. Það var bara eins og það kæmi alls ekki til greina, væri enginn kostur, ekki séns.
Sigurður Kári stingur upp á að við lækkum bensínskatt. Til að lækka verðið. Hann sagði að það væri vel hægt að gera það. Til dæmis með því það sleppa því að byggja hátæknisjúkrahús, efla samgöngur eða hækka íbúðalán. Já! Hversvegna þyrfti maður svo sem velferðarkerfi ef maður fær ódýrt bensín!?
En það er svo sem satt. Það er ekki einfalt mál að ganga. Ég ætlaði tildæmis að ganga í Háskólann um daginn, frá heimili mínu. Ég fann nýjan og fínan göngustíg sem lagður var yfir Hringbrautarskrímslið. Ég tók stefnuna á Háskólann og bjóst við að stígurinn leiddi mig á leiðarenda. Hann gerði það svo um munaði. Tuttugu mínútum síðar var ég kominn á enda, aftur á tröppurnar heima hjá mér. Stígurinn lá í hring, umhverfis allt en innan einskis. Eins og í ljóði eftir Stein Steinarr. Aldrei komst ég nálægt Háskólanum. Á Íslandi eru göngustígar ekki samgöngumáti heldur einhverskonar heilsubótaraðferð. Ætlaðir fyrir gamalmenni í göngutúr eða sem skokkleiðir utan alfaraleiðar.
Maður er því hálpartinn neyddur til að nota bílinn og þá er nú eins gott að bensínið sé ódýrt.
Lifi einkabíllinn - Lifi Ísland
5 ummæli:
Heyr heyr, sammála.
Vælið í stjórnarandstöðunni núna um það að lækka verð á bensíni gerir ekki mjög trúverðuga umhverfissinna úr þeim. Meira að segja vinstri grænir vilja líka niðurgreiðslu. Satt sem Árni Matt. sagði á þingi að það eru sjálfsagt vandfundnir græningjar annars staðar í veröldinni sem mæla með slíku.
Göngustígar í Reykjavík eru gjarna lagðir meðfram sjónum þar sem enginn á leið um. Þar á fólk að ganga eða hjóla í frítímanum, íklætt íþróttafatnaði sem framleiddur er af láglaunafólki í þriðja heiminum. En maður á að fara í vinnuna og reka nauðsynleg erindi á bíl.
hvað ætli séu margar leðjuslóðir þvert á alla flottu sveigana landslagsarkitektanna? Fólk sem er að fara eitthvert vill fara beint.
Ég sá í kastljósinu í gær að göngustígar sem liggja í hring og enda heima eru góðir fyrir heilabilaða - svo þeir villist ekki.
Enda hefur enginn tíma til að ganga nema gamla fólkið og jú e.t.v. Hjörtur
Annars gekk ég í vinnuna í morgun á hinni fögru Akureyri
;-)
Ég geng reyndar í vinnuna á hverjum degi. En það bara vill svo til að ég þarf ekki að fara yfir Hringbraut til þess. Í staðinn geng ég eftir rótgrónu hverfi sem var byggt áður en bifreiðar komu til Íslands og þar miðast skipulag því meira við hesta og menn upphaflega þó vissulega hafi síðustu árin verið sniðið meir og meir af gangstéttum í þágu bílaumferðar.
Skrifa ummæli