17. sep. 2007

Menningarsunnudagur

Það má sjálfsagt kalla sunnudaginn í gær menningarlegan hvað varðar upplifun okkar Jóku. Það var sofið út eins og hægt var þar til ég dröslaðist á fætur skömmu fyrir hádegi og útbjó morgunmat/brönns/hádegismat. Skar meir að segja niður ananas og banana, bara vegna þess að þeir hljóma svo skemmtilega saman, og blandaði ásamt safti og útbjó það sem krakkarnir kalla smúþíðs og eru alveg vitlausir í. Þá var dúndrað sér niður í bæ og stefnan tekin á bókasafn og listasafn. Að þessu sinni, vegna veðurs voru hjólhestarnir skildir eftir heima og sporvagninn tekinn. Það var reyndist náttúrulega heljarinnar ferðalag því við nenntum ekki að bíða eftir þristinum og tókum ellefuna þess í stað. Ellefan gengur hins vegar ekki nálægt bókasafninu, né listasafninu, sem bæði eru við Götaplatsen. Ellefan gengur hins vegar niður á Järntorget og þar stukkum við út og ákváðum að bíða eftir þristinum. En við nenntum ekki að bíða í tíu mínútur og stukkum upp í ásinn sem dró okkur að Linnéplatsen. Þar stukkum við út og biðum eftir sexunni sem kom stuttu síðar og dró okkur alla leið að Korsvägen en þaðan löbbuðum við svo að Götaplatsen. Líklega hefði tekið mun styttri tíma að bíða bara eftir þristinum og láta hann bera okkur að Valand og ganga þaðan að Götaplatsen. En þetta reyndist hinn ágætasti bíltúr. Sunnudagsbíltúr.
Nú þá var það bókasafnið þar sem við eyddum talsverðum tíma og ég gekk þaðan út alsæll með Áhyggjudúkkur Steinars Braga undir höndinni ásamt hljóðbók á sænsku, Populärmusik från Vittula eftir Mikael Niemi. Jóka kom tómhent út enda þjáist hún af valkvíða.
Listasafnið beið okkar fullt af eftirvæntingu. Við horfðum á ljósmyndir Gregory Crewdson. Stórfenglegar. Og svo eitthvað ögrandi rugl sem ég nenni ekki að tala um.
Eftir sporvagnsferðina miklu bókaleitina og myndaáhorfið var hungrið farið að segja til sín svo við gengum (veðrið skánaði á meðan við nutum listanna) að Hagabio við Linnégatan til að snæða og ég að lesa í Áhyggjudúkkum. Ráðherramáltíð er mér skapi næst að segja. Hugmyndin var að kíkja á kvikmynd en ekkert heillaði svo við röltum að lokinni máltíð og lestri til Lottu sem býr í nágrenninu og ræddum málin við hana um stund. Þá var gengið heim og hoppað upp í ellefuna sem brunaði með okkur lokasprettin heim, rétt í tíma fyrir Sopranos í sjónvarpinu.

Jú, þetta var sunnudagur

Engin ummæli: