Ég hef verið að horfa á umræður stjórnmálamanna og annarra í kjölfar hinna dapurlegu kosningaúrslita. Þar þykir mér eitt hafa komið fram í máli fólks öðru framan. Menn hafa klifað á því að „þjóðin hafi gefið skýr skilaboð“ um hitt og þetta. Þannig segir t.d. Geir Haarde að þjóðin hafi gefið skýr skilaboð um að hún vilji sjá Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn.
Ég er nú svo sem maður lýðræðisins. Hef kosið að kalla mig lýðræðissinnaðan og frjálslyndan sósíalista (og er þess vegna landlaus í pólitík). Að mínu mati gefur „þjóð“ skýr skilaboð um eitthvað ef meirihluti kjósenda velur einn kost framar öðrum. Þannig sendi þjóðin (um 65% kjósenda) skýr skilaboð um að hún vildi einmitt ekki sjá Sjálfstæðisflokkinn í næstu ríkisstjórn. Einnig sendi þjóðin (um 52% kjósenda) skýr skilaboð um að hún vildi ekki að núverandi ríkisstjórn starfaði í meirihluta.
Þjóðin gaf á sínum tíma skýr skilaboð um að hún vildi ekki vera aðili að Íraksstríðinu. Þjóðin gaf líka skýr skilaboð um að hún vildi ekki að ríkið seldi Símann á sínum tíma. Þjóðin gefur skýr skilaboð um að hún vill breyta kvótakerfinu. Þá hefur þjóðin gefið skýr skilaboð um að hún vilji fá að kaupa léttvín í matvöruverslunum. Þessi skilaboð hafa öll verið hunsuð.
En einna skýrust eru skilaboð þjóðarinnar um eitt. Við viljum ekki að Framsóknarflokkurinn sé í ríkisstjórn. Við viljum reyndar ekki einu sinni sjá flokkinn á Alþingi! Þessi skilaboð virðast ætla að vera hunsuð, eins og flest skilaboð þjóðarinnar til þessa. Það er heldur ekki skrítið þegar stjórnmálamennirnir telja álit mikils minnihluta þjóðarinnar „skýr skilaboð“.
Hvernig er það? Verður maður að kjósa Framsóknarflokkinn til þess að hlustað sé á mann?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli