Bowie syngur um dans og ég drekk kaffi og undirbý kennslu vetrarins. Þetta er sáralítill undirbúningstími fyrir efni sem ég hef ekki spáð svo mikið í til þessa.
Í námskeiðslýsingu segir svo:
Nemendur verða þjálfaðir í að semja ýmiss konar texta, einkum fréttir og blaðatexta. Farið verður yfir málfar í fjölmiðlum, hvernig skrifa á markvissan fréttatexta og hvernig unnt er að varast ýmsar gildrur, s.s. í stíl og í þýðingum af erlendum tungumálum. Hugað verður að málfari og framsetningu, svo og tengslum við mismunandi miðla (blöð, ljósvakamiðla, net, osfrv.)
Jú, þetta ætti ekki að vera svo flókið, eða hvað?
Aftur að Bowie - og kaffinu - og kennsluundirbúningi. Kennsluundirbúningur er klaufalegt orð, tilheyrir svo nefndum nafnorðastíl. Líklegra er skárra að segja undirbúningur kennslu, þó vissulega sé þar einnig um nafnorðastíl að ræða. En með því má losna við að tveir sömu sérhljóðarnir standi saman (kennsluundirbúningur) sem rétt er að forðast, a.m.k. í ritmáli. Best er kannski að gera eins og ég geri hér í fyrstu málsgrein, sit og undirbý kennslu. Slæmt væri þó að segja framkvæma undirbúning kennslu og enn verra: Sit við framkvæmd kennsluundirbúnings. Það kallast stofnanamál og þykir ekki smekklegt.
Nafnorðastíll og stofnanamál þurfa þó endilega ekki alltaf að teljast slæmt mál enda einn partur af flóru tungumálsins.
2 ummæli:
langar setur við framkvæmd kennsluundirbúnings geta orsakað slæmar afleiðingar fyrir heilbrigðislífið.
gangiðérvel ...
Takist þér að venja nokkra nemendur af nafnorðsku hefur þú gert samfélagslegt gustuk. Rétt eins og frjálsi sjálfur hef ég að mestu aflagt málfarsfasisma en enn leiðrétti ég þó ef ég heyri talva og að sama skapi fer nafnorðastíll með hjálparsögnum (sk. íslEnska) afar mikið í taugarnar á mér. Þó verð ég að játa að ég er ekki heldur laus við þennan ósið.
Mokkur
PS
Þú heldur máske að þú hafir ekki svo mikið spáð í þetta en þú vannst nú t.d. við þetta í tvö ár á meðan þú sast í SHÍ góði minn. Þú smókar þetta.
Skrifa ummæli