12. okt. 2004

"Hva, það er bara eins og þú sért hérna í stofunni hjá mér." "Nei, heyrðu, það heyrist bara svona hringing eins og í gömlum síma." Við Sgrðr vorum að spjalla á Skype. Hann var að ráðgera Rammstein í Rotterdam. Uppselt. Hann er líklega búinn að missa af öllum Rammsteintónleikum í heimi núna. Blessaður.

Merkilegt annars hvernig sumir dagar fara í mestmegnis ekki neitt. Kvöldið átti að vera notað í lestur um Rokk og ról í Ítalíu á eftirstríðsárunum og bandarískan áróður og ritskoðun í Austurríki á sama tíma. Jú, reyndar las ég báðar greinar, en kom mér bara alls ekki að því að skrifa um það reflections.

æjá - máski ætti ég að klára þetta fyrir háttinn. Kannski bara. En ég er orðinn of þreyttur. Ég held ég hiti mér te og lesi einn kafla í bókinn If you've seen one you've seen the mall.

Ég fór út í búð í gærkveldi. Ætlaði að kaupa mér eitthvað snarl, en nennti ekki að elda. Hollendingar eru ekkert mikið fyrir svona égerbaraeinnheimaognenniekkiaðeldamérneitteinfaldarétti eins og maður getur valið um í tugatali í tíuellefu - og verið snöggur að því. Svo ég keypti mér svona 32 party mix drasl í pakka til að djúpsteikja - svona einskonar kjúklinganagga - nema í þessum mix pakka voru líka einhver torræð fyrirbæri sem minntu á osta og hakkabuff.

Á leiðinni heim orti ég vísu:

Stend hér á götunni' og stari' út í bláinn
á stjörnurnar ofan við himinskjáinn
hugsa um lífið og heiminn og allt.
Helvíti er mér orðið kalt.

Það er farið að kólna hér í A'dam. Sólin skín samt sem hún eigi lífið að leysa. Svona eins og geitungur að síðhausti. veit að hann er að fara að drepast en ber sig ofsalega mannalega svona síðustu dagana. Reiðubúinn að drepa hvurn þann sem á vegi hans verður. Já, svoleiðis er sólin mín þessa dagana. Reiðubúin að drepa.

En nú er ég reiðubúinn í háttin. Enda þetta á spontant vísu. Sjáum til:

Bloggið er dautt ég drap það eins og Nietzsche
drullaði yfir Guð og skaut hann svo.
Tilveran rokkar og rólar þó að hvít sé
raunin sem sem efinn aldrei nær að þvo.



Engin ummæli: